143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

brottnám líffæra.

34. mál
[17:05]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir svörin. Enn er verið að tala um að menn eigi að gefa upplýsingar um það ef þeir vilja ekki gefa. Af hverju í ósköpunum biðjum við menn ekki um að koma með jákvætt svar: „Ég vil gefa“? Það er bara þannig að velflestir vilja gefa. Ég mundi vilja að það stæði í skattframtölum: „Viltu gefa líffæri? Já/Nei“. Þá krossa menn bara við. Þá væri hægt að hafa það þannig þegar menn telja fram á netinu að þeir krossuðu bara í annað hvort og hægt væri að klikka þarna á til þess að fá lýsingu og skýringu hvað það þýðir að veita samþykki fyrir því að líffæri sé tekið.

Mér finnst það vera miklu einfaldari leið fyrir utan það hvað hún er hröð. Það þarf ekki að hafa upp á einhverjum ættingja til að spyrja hann: Hvað telur þú að hinn látni hefði nú hugsanlega viljað meðan hann var heill heilsu?

Mér finnst það miklu einfaldari leið og ég skil ekki af hverju flutningsmenn fara ekki þá leið að segja það skuli tekið fram að menn geti hakað við já eða nei í skattframtali, að við tökum það bara fyrir. Ég hugsa að svona 70, 80, 90%, mundi ég giska á, upp í 95% mundu vilja gefa líffæri úr sér að þeim látnum. Þetta er mjög hraðvirkt, það þarf bara að hringja í skattstofuna, fyrir vissa aðila eins og lögregluna og aðra getur verið opinn aðgangur allan sólarhringinn á netinu, þá er hægt að fá að vita strax hvort þessi maður vill gefa líffæri eða ekki.