143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

brottnám líffæra.

34. mál
[17:10]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. 1. flutningsmanni þessa máls, hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur, fyrir merkilega og sköruglega framsögu og ákaflega fræðandi — sömuleiðis fyrir að veita mér þann heiður að vera hluti af þeim hópi flutningsmanna sem fylgir henni með þetta mál. Þetta er ákaflega jákvætt og framfarasinnað mál. Það hefur mörgum sinnum verið rætt hér í þinginu og alla jafna hafa undirtektir þingsins verið ákaflega góðar.

Mér finnst sú umræða sem hv. þm. Pétur H. Blöndal stendur fyrir nú eins og áður ákaflega eftirtektarverð líka. Ég er að sjálfsögðu þeirrar skoðunar, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal, að við eigum sjálf líkama okkar, það eignarhald gildir fram yfir lát. Ég hygg hins vegar að ef við erum þeirrar skoðunar að við viljum ekki gefa part af honum eftir að við erum látin — að þeir sem því viðhorfi fylgja muni örugglega láta það viðhorf í ljós áður en kemur að endadægri. Líkurnar á því aukast eftir því sem umræða og fræðsla um þetta mál verður meiri. Sannarlega er þörf á því. Þá vísa ég sérstaklega til úttektar sem rakin er í greinargerð sem hv. 1. flutningsmaður fór ítarlega yfir og gerð var á árunum 1992–2002, spannaði heilan áratug. Það var eftirtektarvert að á þeim áratug fækkaði þeim sem vildu veita samþykki sitt fyrir því að líffæri úr ættingja sem látinn er yrði nýtt.

Vitaskuld er um að ræða djúpstætt siðferðislegt álitaefni. Í þessu felst brottnám líffæra eftir að vitsmunalega eða andlegu lífi er lokið eins og það er merkt á heilastarfsemi með læknisfræðilegum aðferðum en áður en hjartað hættir að slá. Frá fornu hafa menn jafnan litið svo á að lok lífs séu þegar hjartað hættir að slá. Það er vel skiljanlegt að mörgum renni kalt vatn milli skinns og hörunds andspænis því að þurfa að vega og meta slík álitaefni.

Þess vegna fannst mér besti parturinn í ræðu hv. þm. Silju Daggar Gunnarsdóttur vera með hvaða hætti hún skýrði hvernig menn reru fyrir allar víkur í þeim efnum. Það er alveg ljóst að samkvæmt greinargerð með frumvarpinu er sérstakt tillit tekið til einstaklinga vegna ungs aldurs, vegna veikinda eða annarra þátta sem gætu komið í veg fyrir að menn létu í ljósi upplýsta ákvörðun eða að hún lægi fyrir. Það finnst mér vera kannski besti kosturinn við þann málatilbúnað sem rakinn var áðan.

Ég tek undir með hv. 1. flutningsmanni að ég tel öll efni til þess að nefndin velti fyrir sér leiðinni sem hv. þm. Pétur H. Blöndal velti hér upp, þ.e. að jákvætt samþykki lægi fyrir áður en til þessa kemur. Mér finnst það ágætisaðferð sem hann hefur reifað hér í dag og reyndar tvisvar áður og er honum sammála um að það yrði mjög hátt hlutfall sem mundi veita samþykki sitt fyrir fram ef fólk ætti kost á því að haka við það á skattskýrslunni sinni.

Ég vil í öllu falli taka undir það með hv. flutningsmanni að hér er um að ræða mál sem bjargar lífi fólks, mál sem er fullkomlega óflokkspólitískt í eðli sínu. Ég hvet þingheim til að slá skjaldborg um það.