143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

upptaka gæðamerkisins „broskarlinn“.

58. mál
[17:14]
Horfa

Flm. (Brynhildur Pétursdóttir) (Bf):

Herra forseti. Ég ætla að tala fyrir máli sem hefur reyndar verið flutt áður. Hv. fyrrverandi þingmaður, Siv Friðleifsdóttir, flutti sambærilega eða allt að því sömu þingsályktunartillögu á 140. og 141. löggjafarþingi.

Um er að ræða innleiðingu á merki sem kallast broskarlinn í Danmörku. Það þarf ekki endilega að vera broskarl en hugmyndin er að skýrslur, eftirlitsskýrslur heilbrigðisfulltrúa, séu gerðar aðgengilegar, þ.e. úttektir. Eftir hverja úttekt er fyllt út skýrsla. Í dag hafa neytendur eða almenningur ekki aðgang að upplýsingunum en hugmyndin er að þær verði gerðar aðgengilegar.

Hugmyndin er sótt til Danmerkur og ég þekki þetta mál ágætlega vegna þess að í fyrra starfi var ég að reyna að kynna þetta mál og Neytendasamtökin hvöttu stjórnvöld til að innleiða kerfið árið 2011 en varð ekki ágengt. Siv Friðleifsdóttir tók það síðan upp hér á þingi og það strandaði í nefnd. En við horfum til þess að Danir hafa verið með þetta kerfi frá árinu 2001 þannig að góð reynsla er komin af því. Svo að ég útskýri þetta aðeins nánar er verið að upplýsa neytendur um ástand veitingastaða, ísbúða, bakaría og annarra staða sem selja matvæli, þetta gengur fyrst og fremst út á þess háttar fyrirtæki.

Mér finnst þetta vera mjög þarft mál. Þetta eykur gagnsæi, það að neytandinn er upplýstur um þetta, og eykur líka sýnileika eftirlitsins, sem ég held að sé gott. Það er ekki verið að tala um aukið eftirlit, bara svo að það komi fram, það er mjög mikilvægt. Heilbrigðisfulltrúinn þarf hvort er að mæta á svæðið og gera skýrslu. Eini munurinn er að skýrslan fer ekki í möppu, hún fer á glugga eða á áberandi stað við inngang og er einnig sett á netið.

Danir hafa þann háttinn á að þeir nota broskarla, fjóra. Ef eitthvert fyrirtæki hefur ítrekað fengið þann kall sem brosir breiðast fær fyrirtækið „elite-smiley“ og þá minnkar eftirlit á þeim stað, þ.e. fyrirtækið er látið í friði þó að það geti alltaf átt von á skyndiúttekt. Þá er hægt að einbeita sér að þeim sem standa sig síður vel.

Danmörk er fyrsta landið sem er með svona kerfi á landsvísu en sambærilegt kerfi hefur til dæmis verið sett upp í Þrándheimi í Noregi. Nú eru Bretar að innleiða svona kerfi og miðað er við að búið verði að innleiða það alls staðar í lok ársins. Ég held því að þetta sé eitthvað sem muni koma, að þetta sé framtíðin. Ég held að við ættum ekkert að bíða allt of lengi eftir því heldur vona ég að þetta muni bara ganga til nefndarinnar sem horfi á þetta jákvæðum augum. Ég get ekki séð að mikill kostnaður sé fólginn í þessu því að eins og ég hef ítrekað bent á þarf að fara í eftirlitið hvort eð er. Danir eru nú þegar með kerfi þannig að við getum sótt í reynslubanka þeirra og ég veit að Matvælastofnun hefur kynnt sér þetta mál nokkuð. Það er kannski rétt að taka fram að í Danmörku voru reyndar bæði heilbrigðisfulltrúar og fyrirtæki frekar gagnrýnin í upphafi og þetta var pólitísk ákvörðun sem var tekin þar. En reynslan hefur sýnt að í dag er almenn sátt um þetta kerfi og engar efasemdir svo að ég viti til.

Ég ætla svo sem ekkert að vera að ræða þetta mjög lengi. Greinargerðin með þingsályktunartillögunni er mjög skýr og ég vænti þess að þingmenn lesi hana. Það er kannski mikilvægur punktur í þessu að velta því fyrir sér hver hafi eftirlit með eftirlitinu. Auðvitað væntir maður þess að heilbrigðisfulltrúar fari á alla þá staði sem þeim ber að fara á og skoði það sem þeim ber að skoða, en maður hefur kannski ekkert í höndunum um það. En með því að gera skýrslurnar svona aðgengilegar þá fer það ekkert á milli mála. Það eykur tiltrú á eftirlitskerfinu og einnig á fyrirtækjunum.

Ég held ég hafi farið yfir allt sem máli skiptir. Neytendasamtökin sendu erindi sitt 2011 og fengu svar tveimur árum seinna, eftir að erindið hafði verið ítrekað. Eftir því sem ég hef heyrt var talað um tímaskort og fjármagn sem helstu ástæðu þess að stjórnvöld voru ekki jákvæð gagnvart þessu. En ég get ekki séð stóra kostnaðinn við þetta, ég held að þetta sé klárlega til bóta. Ég vona að málið fái jákvæða meðferð hjá nefndinni.