143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

húsaleigubætur.

72. mál
[18:00]
Horfa

Flm. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf):

Virðulegur forseti. Hér er um afskaplega einfalt mál að ræða frá lagatæknilegu sjónarhorni. Það snýst eiginlega nánast um að setja punkt í eina setningu í lögum um húsaleigubætur, nr. 138/1997.

Árið 2001 var gerð breyting í þá átt að rýmkaður var réttur til húsaleigubóta og námsmönnum sem búa á námsgörðum og deila með sér eldhúsi og baði var gefinn réttur til húsaleigubóta, en almenna reglan er sú að fólk fær ekki húsaleigubætur ef það leigir saman og deilir eldhúsi og baði. Í ljósi þess að langur biðlisti er eftir því að komast á námsgarða — um þúsund stúdentar eru á biðlista eftir íbúð á námsgörðum — grípa margir eðlilega til þess ráðs að leigja á almennum markaði. Þar er ástandið þannig að mjög mikið er um stórar eignir en mjög lítið um litlar eignir og námsmenn verða því að deila eldhúsi og baði á almennum markaði. Þá er kominn upp sá aðstöðumunur að námsmenn sem eru á námsgörðum fá húsaleigubætur þó að þeir deili eldhúsi og baði en námsmenn sem eru á almennum markaði fá ekki húsaleigubætur ef þeir deila eldhúsi og baði. Þessu viljum við í Bjartri framtíð breyta. Við teljum ærið tilefni til.

Af þessu hlýst náttúrlega einhver kostnaður vegna aukinna húsaleigubóta; við teljum að hann sé fremur lítill. Auk þess er kannski spurning hvort hægt sé að tala um kostnaðarauka í þessu sambandi. Það eru náttúrlega áætlanir uppi um að byggja námsgarða, fjölga þeim, þannig að væntanlega er það markmið að reyna að koma sem flestum stúdentum á námsgarða og ef þeir komast á námsgarða fá þeir þessar húsaleigubætur. Það getur varla verið sparnaður í sjálfu sér að hafa námsmenn á biðlistum.

Við teljum að í þessu ástandi, þ.e. háskólastúdentum hefur fjölgað mjög mikið og slíkt ástand er komið upp að þeir komast ekki inn á námsgarða, þá sé það minnsta sem við getum gert að breyta lögunum með mjög einföldum hætti hvað þetta varðar. Það mundi gera mikið fyrir námsmenn. Þeir hafa kallað eftir þessu um nokkurt skeið.

Ég tala fyrir þessu máli núna í þriðja skipti. Það hefur tvisvar sinnum fengið jákvæða umsögn í velferðarnefnd. Því miður hefur málið tvisvar sinnum eiginlega kafnað í málþófi í lok þings og tímaþröng sem er í raun og veru ömurlegt og vitnisburður um hvað vinnubrögðin geta stundum verið niðurdrepandi á Alþingi, að svona lítið mál sem er mjög mikið hagsmunamál fyrir afmarkaðan hóp skuli tvisvar sinnum hafa þurft að víkja í samningaviðræðum í lok þings. Nú mæli ég fyrir þessu tiltölulega snemma og ég vona að það verði ekki örlög þessa máls að kafna aftur í málþófi.