143. löggjafarþing — 11. fundur,  17. okt. 2013.

hlutdeild sveitarfélaga í veiðigjaldi og tekjum af orkuauðlindum.

14. mál
[18:05]
Horfa

Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um hlutdeild sveitarfélaga í veiðigjaldi og tekjum af orkuauðlindum. Flutningsmenn ásamt þeirri sem hér stendur eru hv. þingmenn Guðbjartur Hannesson og Kristján L. Möller.

Þingsályktunartillagan er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að tryggja að við endurskoðun laga nr. 74/2012, um veiðigjöld, á 143. löggjafarþingi 2013–2014 fylgi tillögur um hlut sjávarútvegssveitarfélaga í sérstöku veiðigjaldi. Einnig er ríkisstjórninni falið að móta tillögur um skiptingu mögulegra auðlindatekna af orkuauðlindum landsins milli sveitarfélaga og ríkisins. Ríkisstjórnin hafi samráð við Samtök sjávarútvegssveitarfélaga og Samtök orkusveitarfélaga við gerð tillagnanna.“

Virðulegur forseti. Um endurflutning er að ræða því að á síðasta þingi mælti ég fyrir þingsályktunartillögu svo til eins orðaðri. Breytingin frá fyrri flutningi er sú að núna er talað um hlutdeild sveitarfélaga í veiðigjaldi en ekki hlutdeild útgerðarsveitarfélaga eingöngu enda eru ekki allar sjávarbyggðir í félagi útgerðarsveitarfélaga.

Þingsályktunartillagan sem ég mælti fyrir í september sl. var send til umsagnar. 13 umsagnir bárust frá sveitarfélögum af öllum stærðum og gerðum. Allar voru þær jákvæðar og til stuðnings tillögunni, en í einni þeirra var mælt með því að hlutdeild í tekjum af auðlindunum rynni til allra sveitarfélaga jafnt.

Hinn 5. júlí sl. var samþykkt á Alþingi að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skyldi vinna tillögur að endurskoðun laga nr. 74/2012 sem lagðar yrðu fram á Alþingi löggjafarþingið 2013–2014. Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að við endurskoðunina verði unnar tillögur um hlutdeild sveitarfélaga í sérstaka veiðigjaldinu sem fram kom í frumvarpi um breytingar á lögum á yfirstandandi þingi.

Auðlindastefnunefnd skilaði skýrslu sinni fyrir rétt um ári um stefnumörkun í auðlindamálum. Þar er meðal annars fjallað um mikilvægi þess að arður af auðlindum þjóðarinnar og takmörkuðum gæðum sé sýnilegur og að ráðstöfun hans sé einnig sýnileg, að nýting auðlinda skapi hagsæld og velferð í nútíð og framtíð, sé sjálfbær og skynsamleg og stuðli jafnframt að aukinni þekkingu. Samkvæmt skilgreiningu er þróun sjálfbær ef hún uppfyllir þarfir samtíðarinnar án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til að uppfylla sínar þarfir. Í samstarfi Norðurlandanna í umhverfismálum er stuðst við þrjár víddir sjálfbærrar þróunar sem háðar eru hver annarri, þ.e. hina efnahagslegu vídd, samfélagslegu og vistfræðilegu. Ein þessara vídda má ekki eyðileggja forsendur þróunar hinna tveggja.

Þingsályktunartillagan sem hér er rædd byggir á hinni samfélagslegu vídd sem varðar velferð og sátt í samfélaginu. Til þess að skapa sem víðtækasta sátt um auðlindamál þjóðarinnar telja flutningsmenn þingsályktunartillögu þessarar að nauðsynlegt sé að nærsamfélög fái hlutdeild í þeirri auðlindarentu sem sérleyfi að auðlindunum skapar.

Skilgreiningin sem auðlindastefnunefnd studdist við er eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Auðlindarenta myndast meðal annars í atvinnugrein sem byggir á sérleyfum til nýtingar náttúruauðlinda. Hún er sá umframhagnaður sem eftir stendur þegar atvinnugreinin hefur greitt allan rekstrarkostnað og staðið undir eðlilegri ávöxtun þess fjár sem bundið er í greininni með tilliti til þeirrar áhættu sem í rekstrinum felst.“

Almenn vitund um verðmæti auðlindanna og sýnilegt framlag þeirra til samfélagsins leiðir til þess að ákvarðanir um aðra ráðstöfun auðlindaarðsins eða afslátt til sérleyfishafa þarf að rökstyðja vel og skýra fyrir þjóðinni. Þessi almenna vitund er mikilvæg en einnig er það markmið í sjálfu sér að ná sátt um auðlindanýtingu og þær atvinnugreinar sem á henni byggja. Það fyrirkomulag sem víðtæk sátt er um er líklegra til að standa til frambúðar en fyrirkomulag sem veldur viðvarandi deilum. Liður í sátt um veiðigjaldið er að nærsamfélagið sem byggir afkomu sína á nýtingu auðlindarinnar njóti hlutdeildar í auðlindarentunni sem sérleyfin að auðlindunum skapa.

Í skýrslu auðlindastefnunefndar segir meðal annars um meðferð auðlindaarðs, með leyfi forseta:

„Nefndin bendir á að í ljósi þess að auðlindaarður verður til vegna verðmætis auðlinda víða um land og að nærsamfélögin þurfa oft að færa fórnir og taka á sig kostnað vegna nýtingar, þróunar og hagræðingar í einstökum auðlindagreinum, er bæði sjálfsagt og eðlilegt að tryggja að hluti auðlindaarðsins renni til verkefna í þessum samfélögum, ekki síst til eflingar innviða og fjölbreyttara atvinnulífs. Með þeim hætti getur auðlindaarðurinn orðið undirstaða öflugri byggða og atvinnulífs um land allt. Slík ráðstöfun er einnig mikilvæg til að tryggja sátt um fyrirkomulag auðlindamála.“

Auðlindastefnunefnd skilgreinir auðlindaarð sem hlutdeild ríkisins í auðlindarentunni sem skiptist á milli sérleyfishafa og eigenda auðlindarinnar.

Virðulegi forseti. Lagabreytingar ásamt tækniframförum hafa leitt til mikillar hagræðingar í sjávarútvegi með tilheyrandi fækkun starfa og röskun á búsetuforsendum í sjávarbyggðum víða um land. Þjóðfélagið í heild hagnast á hagkvæmum sjávarútvegi en sjávarbyggðirnar greiða fyrir hagræðinguna með fækkun starfa og fækkun íbúa í kjölfarið. Kvótakerfið með framsalsrétti hefur þannig í för með sér samfélagslegan kostnað sem fallið hefur á byggðir landsins til þessa í formi atvinnurasks og tekjumissis. Jafnframt leiðir hagræðingin til langtímaávinnings fyrir þjóðina í heild en stór hluti ávinningsins hefur runnið til handhafa veiðileyfanna og hin síðari ár að einhverju leyti til ríkisins í formi veiðigjalds.

Í mörgum sveitarfélögum er sjávarútvegur grundvöllur byggðarinnar og með hlutdeild í sérstaka veiðigjaldinu er möguleiki á stuðningi við uppbyggingu innviða og atvinnuþróun og fjölgun starfa, bæði í afleiddum greinum sjávarútvegs og á öðrum sviðum. Hlutdeild sveitarfélaga í sérstaka veiðigjaldinu stuðlar að starfsöryggi og auknum stöðugleika í sjávarbyggðum og betri sátt um gjaldtökuna. Þannig væri stoðum skotið undir samfélög sem eiga sum hver undir högg að sækja. Hlutfall starfa í veiðum og vinnslu er misjafnt eftir sveitarfélögum og taka þarf tillit til þess þegar hlutdeild sveitarfélaganna í sérstaka veiðigjaldinu er ákveðið.

Sjávarauðlindin er ein meginástæða þess að byggð helst um allt land. Rekstur hafna er víða erfiður og bera sveitarfélög mörg hver mikinn kostnað af þeim rekstri sem verður til þess að önnur þjónusta við íbúana geldur fyrir þann kostnað. Þjónusta hafnanna við útgerðina er grundvöllur fyrir rekstrinum sem skilar auðlindarentu bæði til ríkisins og til útgerðarinnar. Því er sanngjarnt að sveitarfélög sem standa undir þeim rekstri fái hlutdeild í sérstaka veiðigjaldinu og vegna hafnanna mætti einnig líta til almenna veiðigjaldsins sem er hugsað sem kostnaðargreiðsla.

Deilur hafa verið í samfélaginu um framsalsheimildir og sérstaka veiðigjaldið en fyrir sjávarbyggðirnar er mikilvægt að friður ríki um starfsumhverfi útgerðarinnar. Markmiðið með hlutdeild nærsamfélagsins í veiðigjaldinu er að byggja upp öflugri sveitarfélög með sanngjarnari skiptingu auðlindarentunnar á milli ríkisins, sveitarfélaganna og útgerðarinnar og stuðla að sátt um skiptingu á auðlindaarðinum.

Alls 26 sveitarfélög mynda Samtök sjávarútvegssveitarfélaga, en samtökin voru stofnuð í september árið 2012. Þau eru, eins og segir á heimasíðu samtakanna, „samtök þeirra sveitarfélaga sem hafa beinna hagsmuna að gæta varðandi nýtingu sjávarauðlindarinnar, veiðar og vinnslu, og er tilgangur samtakanna að vinna að sameiginlegum hagsmunum aðildarsveitarfélaga og íbúa þeirra í þeim málum sem tengjast nýtingu sjávarauðlindarinnar“.

Mikilvægt er að ráðherra hafi fulltrúa þeirra samtaka með í ráðum við gerð framangreindra tillagna. Ekki eru öll sjávarútvegssveitarfélög í samtökunum og því eðlilegt að Samband íslenskra sveitarfélaga verði beðið um umsögn í þessu máli eins og svo mörgum öðrum sem snerta sveitarfélögin í heild. Með því að veita nærsamfélögunum hlutdeild í auðlindarentunni er komið til móts við hina samfélagslegu vídd sjálfbærrar þróunar, velferð og sátt. Taka þarf tillit til allra þátta sjálfbærrar þróunar við ákvörðun á skiptingu tekna sem myndast vegna náttúruauðlinda þjóðarinnar.

Landsvirkjun væntir hækkana á raforkuverði í framtíðinni og því töluverðrar auðlindarentu. Í umræddri skýrslu auðlindastefnunefndar kemur fram að á ársfundi Landsvirkjunar árið 2011 hafi forstjórinn kynnt þá framtíðarsýn fyrirtækisins að á árinu 2025 gætu arð- og skattgreiðslur numið 4–8% af vergri landsframleiðslu. Það samsvarar 70–149 milljörðum kr. miðað við verga landsframleiðslu ársins 2012, þ.e. allt að fjórðungi tekna ríkissjóðs.

Reikna má með því að á næstu árum verði umgjörð orkuauðlindanna þannig að auðlindarenta myndist með svipuðum hætti og þegar hefur gerst í sjávarútvegi. Rétt er að löggjafinn verði tilbúinn með tillögur að skiptingu auðlindatekna af vatnsafli og jarðvarma á milli sveitarfélaga og ríkisins. Slík auðlindarenta er þegar innheimt í norsku vatnsafli og er þeim tekjum skipt á milli stjórnsýslustiga til að auka sátt um nýtingu þeirra. Reynslu Norðmanna væri skynsamlegt að nýta við framangreinda tillögugerð, en þar er einnig tekið tillit til sérstöðu sveitarfélaga þar sem virkjunarkostir eru verndaðir. Í nóvember 2011 voru Samtök orkusveitarfélaga stofnuð. Mikilvægt er að ráðherra hafi fulltrúa þeirra með í ráðum við gerð tillagnanna.

Virðulegi forseti. Að lokum legg ég til að tillögunni verði vísað til atvinnuveganefndar að lokinni þessari umræðu.