143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

störf þingsins.

[15:16]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vildi beina máli mínu til hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur, formanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Ástæðan er sú að ég hef nokkrar áhyggjur af stöðu þingstarfa nú þegar vel er liðið á þetta haustþing. Forseti þingsins rakti í ræðu sinni við þingsetningu mikilvægi þess að mál kæmu snemma frá ríkisstjórninni til þess að vel tækist að vinna þau. Staðan er hins vegar sú að við verðum ekkert vör við mál frá ríkisstjórninni á þessu þingi. Ef frá eru talin þau frumvörp sem lagaskylda kveður á um að lögð skuli fram, fjárlög og tekjuöflunarfrumvörp, er næsta lítið að sjá í þinginu af málum frá ríkisstjórninni.

Í dag eru lögð fram í þinginu 20 mál sem allt eru fyrirspurnir þingmanna eða svör við þeim. Í nefndum hefur verið fundafall á undanförnum dögum vegna verkefnaskorts og í öðrum þeirra eru til meðferðar mál sem eru aðallega endurflutningar mála frá fyrra þingi eða þá mál sem eru innleiðingar á EES-gerðum. Er það þá orðið svo nú að hin linnulitla aðlögun landsins að Evrópusambandinu er orðin bjargvættur þessarar ríkisstjórnar og tryggir að hún hefur þó að minnsta kosti einhver mál til að leggja fram í þinginu?

Ég hef af þessu áhyggjur og vildi velta því upp við hv. þm. Ragnheiði Ríkharðsdóttur hvað sé til ráða til að knýja á um úrbætur í þessu verkleysi ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnin fékk viðbótartíma hér í haust, þing átti með réttu að koma saman 10. september en vegna þrábeiðni ríkisstjórnarinnar, sem treysti sér ekki til að koma fram fjárlögum á réttum tíma, var fallist á að þola það að þing kæmi ekki saman fyrr en 1. október. Mig óraði þá ekki fyrir að engin önnur mál kæmu frá ríkisstjórninni en fjárlagafrumvarp og tekjuöflunarfrumvarp.