143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla, í anda þeirra ræðumanna sem hér hafa talað, að taka undir áhyggjur af málafæð hæstv. ríkisstjórnar, en ég vil líka segja frá því að það er oft gaman að vera í ríkisstjórn, sérstaklega þegar um er að ræða verkefni og viðfangsefni sem leiða til framfara. Það var sem betur fer algengt í tíð síðustu ríkisstjórnar. Þann 28. október sl. var birt alþjóðleg samantekt á opnum gögnum opinberra aðila á síðu sem The Open Knowledge Foundation heldur úti. Þar er hástökkvarinn Ísland sem nú er komið upp í 11. sæti á heimsvísu. Af hverju er það? Það er fyrst og fremst Landmælingum Íslands að þakka. Í matinu fá Landmælingar fullt hús stiga hvað varðar aðgang að opinberum kortagögnum. Og af hverju var það? Það var vegna þess að í janúar sl. ákváðum við, sú sem hér stendur og sú góða ríkisstjórn sem þá var við völd í samvinnu við Landmælingar Íslands, að opna öll stafræn gögn um landupplýsingar stofnunarinnar, að þau yrðu öll gerð aðgengileg og yrðu opin á vef stofnunarinnar án gjaldtöku. Og með samþykkt fjárlaga fyrir yfirstandandi ár varð sú ákvörðun að veruleika.

Þarna er um að ræða gögn um eignaskráningu, skipulagsmál, náttúruvernd, náttúruvá, orkumál, rannsóknir og opinberar framkvæmdir. Gögnin eru eftir gjaldfrelsið notuð gríðarlega mikið af opinberum aðilum en ekki síður af fyrirtækjum til að veita upplýsingar um ýmiss konar þjónustu á samfélagsmiðlum og við gerð appa og smáforrita. Þarna var um að ræða eina af fjöldamörgum ákvörðunum sem snerust um að örva sprota og nýsköpun í þessu samfélagi.

Hvaða framfaramál eru helst í pípunum núna?