143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Undanfarin ár hefur umræða um byggðamál verið með öðrum og skýrari hætti en oft áður. Vinna Byggðastofnunar, með byggðum sem segja má að séu brothættar vegna þess að þær skera sig úr hvað varðar mikla fólksfækkun, erfitt atvinnuástand og óhagstæða aldursþróun undangengin ár, er eftirtektarverð. Unnið hefur verið með íbúum fjögurra slíkra byggða og er Skaftárhreppur þar á meðal.

Byggðastofnun segir nýja nálgun nauðsynlega, sértækar aðgerðir og vinnu með íbúum þar sem hin almennu stuðningsúrræði á sviði atvinnuþróunar, nýsköpunar og byggðaaðgerða dugi ekki til. Byggðastofnun var tryggt fé, 50 millj. kr. á fjárlögum yfirstandandi árs, til að vinna samkvæmt þessari nýju aðferð. Það sýnir, ásamt sóknaráætlun landshluta með fjármunum upp á 400 millj. kr. þrátt fyrir þröngan fjárhag ríkisins og mörgu fleiru, í verki vilja ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur hvað málefni þessara sveitarfélaga varðar. En nú hefur ný ríkisstjórn slegið þessa vinnu af með tillögum í fjárlagafrumvarpinu og hefur auk þess hætt við byggingu húsnæðis fyrir þekkingarsetur á Kirkjubæjarklaustri sem er vel undirbúið samstarfsverkefni til að styrkja byggðina sem heimamenn höfðu bundið miklar vonir við og samtök sveitarfélaga á Suðurlandi sett ofarlega á forgangslista í sóknaráætlun landshlutans.

Ég spyr hv. þm. Ásmund Friðriksson hvað honum finnist um þessa stefnubreytingu ríkisstjórnarinnar og hvaða áhrif hann telji að byggðastefnan sem kynnt er í fjárlagafrumvarpinu hafi á brothættar byggðir landsins, svo sem Skaftárhrepp. Er hann ekki sammála því að víkja þurfi frá þeirri stefnu og að við 2. umr. fjárlaga þurfi þess í stað að styðja enn frekar við stefnu fyrri ríkisstjórnar í byggðamálum, ekki síst hvað varðar brothættar byggðir landsins?