143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

störf þingsins.

[15:36]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Óttari Proppé fyrir að taka upp málefni kjördæmaskipanar á Íslandi. Við hv. þingmaður komum úr sama kjördæmi, Reykjavíkurkjördæmi suður, sem er reyndar eina kjördæmi landsins þar sem ekki er stundaður sjávarútvegur. Við höfum þá sérstöðu fyrir utan það að hafa auðvitað Reykjavíkurflugvöll í miðju kjördæmisins.

Í þessu samhengi verðum við að ræða grundvallarþátt málsins. Þetta fjallar ekki eingöngu um kjördæmaskipan. Við erum hér fulltrúar þjóðarinnar en það eru mismörg atkvæði að baki hverju og einu okkar. Það hefur mjög mikil áhrif á þær ákvarðanir sem hér eru teknar að það er ójafnt atkvæðavægi á Íslandi. Á Íslandi gildir ekki sú sjálfsagða regla um þau borgaralegu réttindi að einn maður sé eitt atkvæði.

Á þingi eru svo margir sem búa við ójafnt atkvæðavægi að það er erfitt að fá þessar breytingar í gegn en ég ákalla þingheim og höfða til þess að þingmenn sameinist um að breyta þessu.

ÖSE gerir reglubundið athugasemdir við atkvæðavægi á Íslandi, segir að það eigi að vera að hámarki 10% munur. Munurinn er 50% á Íslandi og ég vil nota tækifærið í kjölfar orða hv. þm. Óttars Proppés og hvetja þingmenn til að fara nú í það að jafna atkvæðavægi þannig að allir (Forseti hringir.) Íslendingar eigi atkvæði sem vegur jafn þungt.