143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

staða kvenna innan lögreglunnar.

[16:05]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Nýútkomin skýrsla um lögregluna er að mörgu leyti áhyggjuefni. Hún ber það með sér að starfsumhverfi lögreglunnar er erfitt — náttúrlega fólks af báðum kynjum en þó sérstaklega lögreglukvenna. Það er mjög bagalegt að konur upplifi það innan lögreglunnar að þeim sé ekki treyst, það er mikið áhyggjuefni og einnig þessar tölur um kynferðislega áreitni sem eru óþolandi.

Ég gleðst mjög yfir að heyra viðbrögð ráðherra við skýrslunni. Hún tekur verulega alvarlega það sem í skýrslunni segir. Ljósglætur eru í skýrslunni, samanber það að heldur hefur fjölgað síðustu 10 ár. Það er heldur ekki tilviljun, finnst mér, að það embætti sem ég þekki best til — ég starfaði um árabil með lögreglunni sem var mjög ánægjulegt — embætti lögreglustjórans á Suðurnesjum, hefur sett sér jafnréttisáætlun, framkvæmdaáætlun á sviði jafnréttismála. Það harmónerar mjög vel við það — þó að nokkuð langt sé um liðið síðan ég starfaði þarna — að konur voru þó fleiri í því embætti en annars staðar. Kannski ættu menn að líta þangað sem skár hefur til tekist til að byggja ofan á og gera betur.

Það er reyndar líka athyglisvert, sem ég hef samkvæmt áreiðanlegum heimildum, að 65% lögreglukvenna fá starf sem þær sækja um en 55% karlmanna. Þá er spurningin: Eru lögreglukonur ekki nógu duglegar að sækja um þau störf sem losna? Það er ein spurning. En auðvitað hljótum við öll að taka þessa skýrslu mjög alvarlega og vinna að því að bæta hér úr sem allra fyrst.