143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

almenn hegningarlög.

109. mál
[16:30]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er hægt að meiða menn mjög alvarlega með háði. Mér hefur til dæmis stundum verið lagt það til lasts, einkum á fyrri hluta þingtíðar minnar, að hafa stundum verið óþarflega meinhæðinn í garð saklausra samborgara á Alþingi en eins (Gripið fram í.) og hv. þingmaður hefur tekið eftir er sá þáttur í minni lyndiseinkunn fullkomlega upprættur og ekkert nema blíðlyndið eitt og mjúklyndið eftir.

Hv. þingmaður verður að fullkomna rökgengi hugsunar sinnar. Ef hann treystir sér ekki til þess að ljá þessari réttarbót atkvæði sitt verður hann að segja b-ið sem fylgir því a-i. Þá verður hann að leggja til að þeir hópar sem hér eru taldir upp verði felldir út úr þeirri vernd sem gildandi lög veita. Það verður hann að gera ef hann ætlar að vera fullkomlega samkvæmur sjálfum sér.

Það gengur ekki fyrir hann að koma hingað og segja að hann ætli ekki að styðja málið og hann treysti sér ekki til þess. Það finnst mér merkilegt af húmanistum eins og þeir ágætu félagar mínir í hópi pírata hafa lýst sjálfum sér og sumir reyndar sem hægri sinnuðum húmanistum eins og sennilega mætti segja að hæstv. innanríkisráðherra sé þannig að (Gripið fram í.) ef ég væri hæstv. innanríkisráðherra mundi ég segja: Velkominn í minn breiða faðm.

En það gengur ekki að hann lýsi því hér yfir að hann treysti sér ekki til að styðja réttarbót við þennan hóp án þess að leggja þá til á grundvelli þeirra raka sem hann flutti hérna áðan, að hinar forsendurnar sem skapa réttarvernd, þ.e. kynþáttur, trúarskoðanir eða kynhneigð, séu felldar út. Það verður hann að gera til þess að vera samkvæmur sjálfum sér.