143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

almenn hegningarlög.

109. mál
[16:32]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hyggst ræða málið í hv. allsherjar- og menntamálanefnd og taka tillit til þeirra umsagna sem þar koma fram. Þar mun ég aftur viðra skoðanir mínar og sjá hvað aðrir nefndarmenn hafa um þær að segja og reyna að mjaka þessu í einhverja rétta átt.

Aðalmisskilningurinn hér er kannski sá að ekki eru öll vandamál heimsins leyst með því að Alþingi banni eitthvað. Það er fullt af vandamálum, sérstaklega samfélagslegum, sem samfélagið sjálft þarf að laga og hefur lagað.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson minntist sérstaklega á réttarbót samkynhneigðra. Nú vil ég árétta eitt. Svokölluð réttarbót fyrir samkynhneigða í lögum kom ekki sem fyrirrennari samfélagslegrar samþykktar á samkynhneigð. Fyrst kom samfélagið og sagði: Vitið þið hvað, samkynhneigð skiptir í versta falli engu máli. (ÖS: Þú manst nú ekki einu sinni því, vinur, þú ert ekki nógu gamall.) Jú, ég man það bara víst, (Gripið fram í.) hv. þingmaður. Síðan koma lögin sem eiga að passa að fólk sé ekki móðgað.

Hv. þingmaður nefnir hér sína eigin meinhæðni sem dæmi um það að hæðni geti sært fólk. Ég velti fyrir mér hvort hv. þm. Össur Skarphéðinsson telji að honum beri að refsa fyrir slíka háttsemi. (ÖS: Mér hefur oft verið refsað fyrir hana.) Þá skal ég verja hv. þingmann hvenær sem er til að hann haldi þeim sjálfsagða rétti.

Annar þáttur í því er líka að hv. þingmaður er, að eigin sögn, ekki þannig lengur, a.m.k. ekki að sama skapi. Hvers vegna? Jú, vegna þess að hv. þingmaður hefur fengið færi til að þroskast, eins og sá sem hér stendur. Ég hef sagt alls konar hræðilega hluti í gegnum tíðina, eins og fjölmiðlar vita, ég hef hlegið að alls konar bröndurum sem mér finnst núna vægast sagt ósmekklegir. Við þroskumst með því að taka þátt í umræðunni en um leið og við erum farin að setja lögbann á ákveðnar skoðanir og ákveðna hæðni missum við í leiðinni tækifærið til að þroskast, samfélagið, ekki Alþingi heldur samfélagið sjálft. Það er það sem ég óttast.

Að lokum vil ég ítreka að ég er sammála markmiðinu, ég tek virkan þátt í átt að ná þessu markmiði, hef gert í fjölmörg ár og mun halda því áfram. Ég geri það hins vegar ekki með því að banna, ég geri það með því að tala, með því að sannfæra — ef ég get.