143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

myglusveppur og tjón af völdum hans.

96. mál
[17:04]
Horfa

Flm. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir undirtektir hennar við málið hér í ræðustól. Ég tek sérstaklega undir þegar hún segir að þetta sé eitt af brýnustu þingmannamálunum sem við getum vonandi sameinast um að samþykkja og það helst fyrir jól af því að vinnan þarf að fara í gang.

Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður segir, það er í raun og veru stórfurðulegt að þetta skuli ekki vera komið miklu, miklu lengra og að ekkert hafi gerst í málinu fram að þessu annað en að stjórnvöld og aðrir hafa fengið bréf og í raun og veru áköll frá fólki sem hefur lent í slíkum hremmingum. Ég vil þakka fyrir þetta vegna þess að hv. þm. Birgitta Jónsdóttir situr í umhverfis- og samgöngunefnd og ég trúi því og treysti að hún fylgi málinu eftir þar þannig að það verði tekið til umfjöllunar og verði sem fyrst sent út til umsagnar. Ég vil líka segja, virðulegi forseti, að ég held að Alþingi eigi að koma að því eða að nefndasviðið eigi að koma því til skila að einstaklingar sem vilja — þess vegna undir nafnleynd — geti sent nefndinni umsagnir sínar og reynslusögur vegna þess að þær eru allsvakalegar. Mér hefur oft á tíðum brugðið mjög við að fá lýsingar frá fólki.

Virðulegi forseti. Í þessu stutta andsvari ætla ég lesa upp úr grein sem birtist í blaði og er frá konu sem lenti í þessu. Í þeirri grein stóð einfaldlega þetta, sem snýr að fjárhagslegu tjóni, með leyfi forseta:

„Húsið mitt er jafn ónýtt og ef það hefði brunnið til grunna en það tjón á ég bara að höndla ein.“

Tryggingar hefðu bætt húsið ef það hefði brunnið til grunna en vegna þess að það kom upp myglusveppur og rífa þurfti húsið niður að grunni þurfti þessi einstaklingur að bera allan kostnað og burðast áfram með öll lán sem hvíldu á ónýta húsinu.