143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

myglusveppur og tjón af völdum hans.

96. mál
[17:10]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp sem einn af flutningsmönnum þessarar tillögu sem er mjög mikilvæg. Ég tek undir með umræðu í andsvörum áðan, ég tel að þetta sé þingmannamál sem ætti að njóta forgangs hjá okkur því að þetta er löngu tímabær tillaga. Þegar þessi þingmaður var að segja frá þingsályktunartillögunni í hópi samflokksmanna sinna varð einum að orði, með leyfi forseta:

„Þingsályktunartillaga um myglusvepp, er nú ekki nóg mulið undir þennan árans myglusvepp? Eigum við ekki frekar að berjast á móti honum?“

Það er eiginlega málið. Það kemur manni spánskt fyrir sjónir hvað við erum stutt komin, að þessi vinna sé í raun ekki löngu farin af stað miðað við það að myglusveppur er búinn að vera áberandi vandamál á Íslandi í nokkuð mörg ár.

Í beinu framhaldi af samræðum við þennan flokksfélaga minn, sem starfaði einu sinni í Noregi, vildi ég koma þeim upplýsingum á framfæri að hann hefði starfað þar fyrir apparatið Norsk Hussopp Forsikring, húsasveppasjóð Norðmanna ef svo má segja, sem var hluti af viðlagasjóðskerfi Norðmanna. Norðmenn líta á sveppinn á sama hátt og hv. þm. Kristján L. Möller orðaði það í svari við andsvari hérna áðan, sem utanaðkomandi náttúruvá á borð við ofanflóð, skógarelda eða hvaðeina sem er þá ábyrgðartryggt af samfélaginu.

Ég vildi bara við fyrri umr. um þingsályktunartillöguna koma þessum upplýsingum á framfæri og beina því til nefndarinnar að kynna sér þetta fyrirkomulag hjá frændum okkar í Noregi. Ég fagna þessari tillögu sérstaklega, ekki bara vegna þess hversu mikilvæg hún er heldur líka vegna þess að hún er óvenjuvel unnin. Það hversu vel unnin tillagan er ætti að flýta fyrir því að málið fái framgang.