143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

merking á vörum frá hernumdum svæðum Palestínu.

20. mál
[18:24]
Horfa

Flm. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um merkingar á vörum frá hernumdum svæðum Palestínu sem ég flyt ásamt hv. þingmönnum Katrínu Jakobsdóttur, Össuri Skarphéðinssyni, Helga Hrafni Gunnarssyni, Helga Hjörvar og Lilju Rafneyju Magnúsdóttur. Tillagan hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að grípa til nauðsynlegra ráðstafana annars vegar til að merkja uppruna vara sem framleiddar eru á hernumdum svæðum Palestínu með viðeigandi hætti og hins vegar til að gera Palestínumönnum kleift að nýta sér kosti fríverslunarsamnings EFTA og Palestínu.“

Þessi tillaga var fyrst flutt á 141. þingi og var þá til umfjöllunar í nefnd sem mælti með samþykkt hennar en málið var hins vegar ekki afgreitt í atkvæðagreiðslum fyrir þinglok og kemur hún hér aftur til umfjöllunar á þessu þingi.

Hið tvíþætta efni þingsályktunartillögunnar felur í sér viðbrögð við afleiðingum hinna langvinnu deilna um landamæri Ísraelsríkis og Palestínu. Annars vegar er lagt til að gerðar verði ráðstafanir til að upprunamerkja varning sem stafar frá hersetnum svæðum í Palestínu með réttum hætti og hins vegar að stjórnvöld hlutist til um að gera Palestínumönnum kleift að nýta sér kosti fríverslunarsamnings EFTA og Palestínu sem tók gildi árið 1999.

Á undanförnum árum hefur færst vöxtur í hinar svokölluðu landnemabyggðir Ísraela á þeim svæðum sem hafa lotið ísraelskri stjórn síðan sex daga stríðinu lauk árið 1967 en þær eru einkum vestan megin árinnar Jórdan í austurhluta Jerúsalemborgar og í Gólanhæðum á landamærum Ísraels og Sýrlands. Þarna hafa Palestínumenn verið flæmdir á brott, mannvirki þeirra eyðilögð og lendur teknar traustataki af borgurum Ísraelsríkis sem hafa sest þar að sem aðrir bjuggu fyrir og kalla sig landnema. Þetta framferði er ólögmætt samkvæmt alþjóðarétti og eru því umræddar byggðir meðal helstu ásteytingarsteina í friðarumleitunum milli Palestínu og Ísraels. Þær eru enda afar umdeildar í Ísrael þar sem fjölmargir borgarar eru þeim mjög andsnúnir. Íslensk stjórnvöld hafa aldrei fallist á að svæðin sem hertekin voru árið 1967 séu hluti Ísraelsríkis.

Í tillögunni sem hér er um að ræða er gert ráð fyrir því að merkja rétt vörur sem eru frá hinum hernumdu svæðum. Landnemabyggðirnar umdeildu eru ekki hluti Ísraels að alþjóðalögum og það er því rangt að merkja varning sem þaðan kemur sem ísraelskan. Neytendur eiga rétt á að fá sem fyllstar upplýsingar um þær vörur sem þeim standa til boða, þar á meðal um uppruna þeirra, og það er afar mikilvægt að slíkar upplýsingar séu réttar enda byggja neytendur val sitt á þeim.

Undanfarið hafa nokkur ríki búist til að vinna gegn röngum merkingum á vörum frá hernumdum svæðum í Palestínu með því að setja reglur sem skylda framleiðendur og vörusala til að merkja varning sem þaðan kemur með réttum upprunamerkingum. Slíkar reglur hafa þegar verið settar í Danmörku og í samstarfssamningi Ísraels og Evrópusambandsins eru ákvæði þess efnis að ísraelskar vörur skulu merktar með þeim hætti að ótvírætt sé hvort þær eru upprunnar innan alþjóðlegra viðurkenndra landamæra Ísraelsríkis eða á hernámssvæðunum. Vörur frá hernámssvæðum Ísraels falla utan fyrrnefnds samnings og njóta ekki þeirrar ívilnunar á sameiginlegum markaði Evrópusambandsins sem samningurinn tryggir ísraelskum varningi ella.

Með ráðstöfunum sem þessi þingsályktunartillaga kallar eftir yrði íslenskum neytendum tryggðar fyllri og nákvæmari upplýsingar en nú er raunin um uppruna varnings frá hinu hernumdu svæðum Palestínu. Landsmönnum gæfist þannig kostur á að ákveða hver fyrir sig hvort þeir vilji styðja efnahagslíf á ólöglegum landnemabyggðum á hernumdum svæðum í Palestínu. Það er ekki víst að slíkar upprunamerkingar sem hér er lagt til að verði teknar upp muni hafa mikil áhrif á viðskipti Ísraels og Íslands, sem eru talsverð og hafa farið vaxandi undanfarin ár, en þær gætu þó orðið til að draga úr tortryggni í þessu sambandi.

Fríverslunarsamtök Evrópu, EFTA, og Frelsissamtök Palestínumanna, PLO, hafa gert með sér bráðabirgðafríverslunarsamning sem tók gildi 1. júlí 1999 og hann er birtur sem fylgiskjal með þeirri þingsályktunartillögu sem ég mæli hér fyrir. Tilgangurinn með gerð bráðabirgðasamningsins var að tryggja jafnvægi milli EFTA-ríkjanna og Evrópusambandsríkjanna í viðskiptum við löndin um sunnanvert Miðjarðarhaf. Þá var samningurinn talinn mikilvægur hlekkur í stuðningi við friðarferli fyrir botni Miðjarðarhafs. Skemmst er frá því að segja að samningurinn hefur ekki verið virkur sem skyldi og viðskipti EFTA við heimasvæði Palestínumanna eru takmörkuð af þessum sökum.

Ég vil geta þess að á vettvangi þingmannanefndar EFTA og á fundum þingmannanefndar EFTA með utanríkisráðherrum og viðskiptaráðherrum EFTA-ríkjanna á undanförnum árum hefur fríverslunarsamningurinn við Palestínu og málefni honum tengd verið ósjaldan til umræðu.

Ég tel ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þetta mál. Ég tel mikilvægt að það komist sem fyrst á rekspöl með því að ríkisstjórninni verði falið að undirbúa þær ráðstafanir sem þingsályktunartillagan gerir ráð fyrir. Ég ítreka að málið fékk umfjöllun í þingnefnd hér í vor. Það var reyndar í hv. atvinnuveganefnd. Þetta mál er hins vegar þannig að það snertir marga þætti. Það er að sjálfsögðu viðskiptamál sem atvinnuveganefnd gæti hugsanlega átt að fjalla um eða jafnvel efnahags- og viðskiptanefnd. Þetta er líka utanríkisviðskiptamál sem utanríkismálanefnd fjallar um og þetta er að sjálfsögðu utanríkismál. Ég ætla því að leyfa mér á þessu þingi, virðulegi forseti, að leggja til að málið gangi að þessu sinni til hv. utanríkismálanefndar og til síðari umr. að lokinni þessari umræðu.