143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

merking á vörum frá hernumdum svæðum Palestínu.

20. mál
[18:32]
Horfa

Flm. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki víst að hægt sé að svara með óyggjandi hætti þeirri spurningu sem hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir lagði hér fram. Það er ekki víst að það sé algerlega ljóst með hvaða hætti unnt er að tryggja að Palestínumenn geti nýtt sér kosti fríverslunarsamningsins milli EFTA og Palestínu. En því hefur hins vegar verið haldið fram að í reynd komi ísraelsk stjórnvöld í veg fyrir að Palestínumenn nái að fullnusta þennan samning við EFTA og vafalaust ýmsa aðra og njóta þeirra fríðinda sem honum fylgja vegna þess að landssvæði Palestínumanna er sundurrist af múrum sem koma í veg fyrir að þeir geti yrkt land sitt og að eðlilegir vöruflutningar geti þar af leiðandi farið fram um land þeirra. Palestínumenn þurfa að fara með allar sínar vörur og flutninga í gegnum yfirráðasvæði Ísraels og það gefur Ísraelsmönnum í raun kost á því að stjórna því býsna mikið hvers konar flutningar fara fram, hversu mikið magn o.s.frv. Þess vegna hefur því verið haldið fram að ísraelsk stjórnvöld komi með slíkum aðgerðum í raun í veg fyrir að Palestínumenn geti nýtt sér kosti þessa fríverslunarsamnings og, eins og ég segi, ugglaust ýmissa annarra samninga sem þeir hafa gert. Að sjálfsögðu má segja að eina haldbæra og varanlega leiðin til að tryggja að Palestínumenn geti nýtt sér kosti svona samninga sé að þeir verði sjálfstætt ríki, en Alþingi Íslendinga hefur samþykkt að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt ríki. Það er kannski eina leiðin, en ég held að erfitt sé að svara því nákvæmlega hvort einhvers konar frekari þrýstiaðgerðir eða einhverjar ráðstafanir af hálfu EFTA-ríkjanna eða Evrópusamningsins og annarra sem gert hafa samninga við Palestínumenn séu fullnægjandi. Það er erfitt að fullyrða það.

Eins og ég segi tel ég mikilvægt að við samþykkjum þessa tillögu hér þannig að kannað verði með hvaða hætti við getum lagt okkar af mörkum til að hægt sé að nýta (Forseti hringir.) þessa kosti.