143. löggjafarþing — 13. fundur,  31. okt. 2013.

atvinnutækifæri fyrir ungt fólk.

[10:44]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Það er ekki rétt að fjárfestingaráætlunin hafi ekki verið fjármögnuð. Það er hins vegar búið að breyta forsendum hennar þannig að nú er hægt að segja að hún sé ekki fjármögnuð. Hún var fjármögnuð þegar hún var lögð fram. Það var ákveðin hugmyndafræði á bak við þá fjármögnun, að það væri réttlætanlegt að nota hluta af arði af eigum hins opinbera í fjármálakerfinu. Hið opinbera á 41%, held ég, í íslenska fjármálakerfinu og það er farinn að koma arður úr því kerfi. Það er réttlætanlegt að nota þann arð til að greiða niður skuldir og fjárfesta. Hins vegar er arðurinn af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar sem okkur finnst líka réttlætanlegt að nota að hluta til fjárfestinga. Það er alls ekki rétt að ekki hafi verið hugsað fyrir fjármögnuninni. Það er hins vegar búið að breyta henni.

Svo kemur það mér verulega á óvart að hæstv. forsætisráðherra skuli segja að fjárfestingaráætlunin hafi verið illa ígrunduð og muni ekki skila sér. (Forseti hringir.) Þarna eru til dæmis tillögur sem margoft er búið að fara yfir (Forseti hringir.) í tækni- og hugverkageiranum um eflingu Tækniþróunarsjóðs. Vísindasamfélagið kallar á eflingu (Forseti hringir.) Rannsóknasjóðs. Ég nefni bara tvo þætti.