143. löggjafarþing — 13. fundur,  31. okt. 2013.

sjúkraflutningar.

[11:00]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst beinu spurningarnar. Varðandi fjáraukann kemur það í ljós þegar hann verður lagður fram. Ég á síður von á því að fram komi breytingartillaga við 2. umr. fjárlagafrumvarpsins. Það kann þó vel að vera, nefndin er með það í meðförum. Ég hef sagt við fulltrúa sveitarfélaganna og beint þeim tilmælum til þeirra að ef þau vilji reyna að fullnusta þetta með öðrum hætti en viðræðum við ráðuneytið skuli þau ræða við þingið. Það er bara þeirra sjálfsagði réttur.

Ég hef ekki lofað svari fyrir 1. nóvember af þeirri einföldu ástæðu að í bréfinu frá sveitarfélögunum er ákveðin mótsögn sem segir að þau telji að það verði að bíða eftir niðurstöðum fjárlaga fyrir árið 2014 til að sjá hvernig þetta geti gengið eftir. Þau vilja hins vegar hefja verklok 1. nóvember og ég þarf að svara því erindi fyrir þann tíma.

Það er hins vegar alveg klárt í kröfulýsingunni fyrir sjúkraflutningana, og ég vil undirstrika það hér, að það verði engin röskun á þessu mikilvæga máli fyrr en verksali og verkkaupi hafa náð saman um framhald þessa máls. Það er mjög ákveðin og skilyrt (Forseti hringir.) yfirlýsing í kröfulýsingunni um þessa flutninga. Það verður ekki uppihald í þeirri þjónustu sem hér um ræðir.