143. löggjafarþing — 13. fundur,  31. okt. 2013.

njósnir bandarískra yfirvalda á Íslandi og víðar.

[11:03]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Fyrst tími gefst til vil ég byrja á því að taka það skýrt fram að ég tek algjörlega undir með hv. þingmanni um alvarleika þessara mála. Það er búið að vera með stökustu ólíkindum að fylgjast með fréttum af því hvernig ríki, sem maður hafði talið að væru bandamenn, hafa beitt njósnum og nýrri tækni við upplýsingaöflun langt umfram það sem eðlilegt getur talist, og auðvitað er alltaf óeðlilegt þegar vinaþjóðir stunda slíkar njósnir.

Ég vil líka fagna því sérstaklega að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd undir forustu hv. þingmanns skuli hafa tekið þetta mál til skoðunar, sérstaklega fullyrðingar um að Ísland sé á einhverjum lista yfir ríki sem hafi starfað með NSA, Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna.

Hv. þingmaður nefndi réttilega að íslensk stjórnvöld hafa alloft gert athugasemdir við þetta framferði bandarískra stjórnvalda og komið þeim skilaboðum til fulltrúa bandarískra stjórnvalda að við teldum aðferðir sem þessar algjörlega óásættanlegar til upplýsingaöflunar, hvort heldur sem er hér á landi eða gagnvart öðrum bandamönnum. Fyrr í þessari viku var sent formlegt erindi til Bandaríkjastjórnar í gegnum sendiráð þeirra hér á landi þar sem Bandaríkjamenn eru krafðir svara um hvort njósnum hafi verið beitt hér á landi, hvort njósnað hafi verið um íslenska stjórnmálamenn eða aðra íslenska ríkisborgara líkt og gert hefur verið að því er virðist um stjórnmálamenn og jafnvel almenning í öðrum löndum sem hafa talið sig til bandamanna Bandaríkjanna.