143. löggjafarþing — 13. fundur,  31. okt. 2013.

skráning upplýsinga um umgengnisforeldra.

71. mál
[11:52]
Horfa

Flm. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf):

Virðulegur forseti. Þetta mál er nátengt því sem ég var að tala um hér áðan og ég fagna góðum viðbrögðum hv. þm. Bjarkeyjar Gunnarsdóttur við tillögunni. Við sátum einmitt saman í velferðarnefnd og það var í raun og veru einhugur í nefndinni um að koma á jöfnu búsetuformi eða tvöföldu lögheimili eða a.m.k. að fara í þá vinnu. Ég er því vongóður um að það mál nái fram að ganga. En þá kem ég að því máli sem er tengt því sem ég vék að í ræðu minni áðan, þ.e. að mikill aðstöðumunur væri á milli lögheimilis foreldra annars vegar og umgengnisforeldra.

Ein rótin að þessum aðstöðumun er einfaldlega sú að umgengnisforeldrar eru ekki skráðir í veigamiklum opinberum gögnum sem foreldrar. Það kannast væntanlega sumir við það, alla vega kannast umgengnisforeldrar við það að þegar þeir fylla út skattskýrsluna sína er spurt: Hversu mörg börn hefurðu á heimili þínu, held ég að sé sagt, og maður á þá bara að nefna börnin sem hafa lögheimili hjá manni. En svo er veruleikinn kannski sá að það býr annað barn á heimilinu sem maður umgengst, það býr kannski helminginn af árinu inni á heimilinu. Maður miðar þá heimilið náttúrlega við það. Það barn hefur herbergi á heimilinu og tekur þátt þar að öllu leyti þannig að það er bara í lögformlegum skilningi sem barnið er ekki skráð til heimilis þar. Það er því svolítið afkáralegur munur sem kominn er upp og hefur verið á milli lögheimilisforeldra og umgengnisforeldra. Hann er einfaldlega vegna þess að umgengnisforeldrar eru ekki skráðir sem foreldrar. Stór hópur fólks í samfélaginu er með börn á heimilum sínum, þetta eru líffræðilegir foreldrar þessara barna í flestum tilvikum sem ekki eru skráðir foreldrar en ala samt upp börnin. Það skekkir auðvitað alla myndina sem við notum til þess að komast að skynsamlegri niðurstöðu til dæmis varðandi bótakerfið.

Hvert beinum við bótum? Við viljum beina þeim væntanlega til uppalenda barna því að við ætlum að styrkja fólkið í að ala upp börn. Þarna er þá sem sagt einn hópur sem ekki nýtur þessara bóta þrátt fyrir að hann ali upp börn, svo dæmi sé tekið. Þessi aðstöðumunur kemur auðvitað niður á börnunum.

Þetta er í sjálfu sér mjög einföld tillaga. Hún snýst bara um eftirfarandi: Byrjum að skrá þessa stærð, byrjum að skrá þennan veruleika niður. Gefum umgengnisforeldrum það að þeir eru líka foreldrar og setjum það í opinber gögn og sjáum hvaða mynd kemur upp. Reynum síðan að endurbæta bótakerfið og alla opinberu umgjörðina utan um þessi mál þegar við sjáum þessa mynd. Hún er einfaldlega ekki til núna þó að við vitum að veruleikinn er sá að börn búa í mjög mörgum tilvikum hjá foreldrum sínum sem ekki eru skráðir foreldrar þeirra.

Ég vil líka leggja áherslu á eitt, það varðar náttúrlega hag barna að þau njóti samvista við báða foreldra eftir skilnað en eins er þetta gríðarlega mikið jafnréttismál kynjanna. Við Íslendingar fórum í það að breyta fæðingarorlofskerfinu hér á sínum tíma þannig að staða kynjanna gagnvart barnauppeldi yrði jöfnuð, að bæði faðirinn og móðirin mundu axla ábyrgð á því að ala upp börnin sín og fengju bæði rétt til orlofs til þess að sinna þeim. Það leiðir til þess að staða kynjanna jafnast á vinnumarkaði vegna þess að þá hugsar vinnumarkaðurinn ekki að barneignir séu bara málefni móðurinnar og vinnumarkaðurinn lítur svo á að það sama eigi yfir bæði kynin að ganga í þessu efni. Faðir og móðir eru jafn líkleg til þess að taka orlof vegna fæðingar barns, að minnsta kosti á það að vera þannig.

En þegar kemur að þessum málum þá búum við, held ég, við þann veruleika eftir skilnað foreldra að vinnumarkaðurinn lítur svo á að barnauppeldið verði málefni móðurinnar. Það er í yfirgnæfandi tilfellum þannig að lögheimili barnanna færist til móðurinnar og hún er þá skráð sem einstæð móðir í opinberum gögnum. Faðirinn fær kannski ríkulega umgengni en hann er bara skráður sem einstaklingur í opinberum gögnum, ekkert barn er skráð þar þannig að myndin af kynjunum í þessu samhengi virðist vera sú að þá axli móðirin alla ábyrgð á barnauppeldinu, taki öll börnin, sé einstæð móðir í gögnum og búi við bág kjör. En faðirinn, hvað gerir hann? Hann er laus og liðugur, ekkert barn þar. Kaupir sér sportbíl og flotta risíbúð. Það er myndin, hún er mjög gamaldags. Veruleikinn er hins vegar sá í langflestum tilvikum að eftir skilnað þá axla báðir foreldrar ábyrgð á uppeldi barna sinna og skráning upplýsinga og öll lagalega umgjörðin verður að miðast við það og styðja það. Það er hagur barnanna og það er líka jafnréttismál kynjanna. Út á það gengur þessi tillaga.