143. löggjafarþing — 14. fundur,  1. nóv. 2013.

störf þingsins.

[10:35]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Smálánafyrirtækin sniðganga ný lög á neytendamarkaði með gjaldskrá sem tekur gildi í dag. Þar er rukkað sérstaklega fyrir flýtiþjónustu til að geta haldið áfram að taka mörg hundruð prósenta vexti af lánum til fólks sem oft á við mikinn vanda að stríða. Hér í þinginu hefur verið þverpólitísk samstaða um að setja skorður við okurlánastarfsemi af þessu tagi. Ný lög um neytendalán kváðu skýrt á um að sett yrði þak á þá vexti sem þessi fyrirtæki og önnur mættu taka af almenningi í landinu. Það er óþolandi að lögin séu sniðgengin með þessum hætti og ég hvet efnahags- og viðskiptanefnd þingsins til þess að halda áfram þeirri þverpólitísku vinnu og koma í veg fyrir og tryggja að með þessum hætti geti menn ekki okrað á almenningi á Íslandi.

Hér í kringum okkur höfum við dæmi um að settar hafa verið skorður við því hversu fljótt megi afgreiða lán. Ef fyrirtækin komast upp með þá sniðgöngu sem þau stunda nú tel ég fulla ástæðu til að skoða það alvarlega hvort ekki sé einhver lágmarkstími sem þurfi að líða frá því að lán eru samþykkt og þangað til fólk fær þau í hendurnar eins og tíðkast meðal annars í nágrannalöndunum.