143. löggjafarþing — 14. fundur,  1. nóv. 2013.

störf þingsins.

[10:39]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Það er rétt sem kemur fram í hagvaxtarspá ASÍ, hagvöxturinn á þessu ári verður 1,7% eins og kemur fram í forsendum fjárlaga. Það gerir ráð fyrir 2,2% hagvexti á árinu 2014 en í fjárlögum var gert ráð fyrir 2,7%. Það á svo sem eftir að koma í ljós hvaða spá Hagstofan kemur með núna í nóvember.

Varðandi skýringarnar sem ASÍ gefur á þessum samdrætti úr 2,7% í 2,2% á næsta ári sýnist mér það vísa aðallega til fjárfestinga eins og hv. þingmaður vekur athygli á. Það eru 8% minni fjárfestingar en áætlað var. Þá munar að þeirra mati mest um að Helguvík fer ekki af stað og einhverjar seinkanir eru á öðrum hlutum. Fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar er ekki tekin með, sem núverandi ríkisstjórn hefur bent á, að mér skilst, að hafi ekki verið að fullu fjármögnuð og að þess vegna hafi ekki verið forsenda til að halda henni til streitu.