143. löggjafarþing — 14. fundur,  1. nóv. 2013.

störf þingsins.

[10:52]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera aðgengi að háskólanámi að umtalsefni. Almennt er talið að aðgengi að háskólanámi á Íslandi sé gott. Að mörgu leyti er það rétt en á þó ekki við að öllu leyti. Framboð á fjarnámi á háskólastigi er orðið töluvert en samt er í flestum greinum ekki boðið upp á fjarnám. Í sumum greinum er erfitt að koma því við en í öðrum greinum er kennsla þannig að auðvelt er að stunda nám úr fjarlægð þó að námið sé ekki skilgreint sem slíkt.

Margir háskólakennarar koma bæði fyrirlestrum og námsefni á lokaða námsvefi háskólanna og einnig er hægt að nálgast opna fyrirlestra frá erlendum háskólum á netinu sem íslenskir háskólanemar nýta sér. Hér á landi stundar því fjöldi fólks fjarnám þó að námið sé ekki skilgreint sem slíkt. Þetta gengur oft og tíðum vel en stundum kemur babb í bátinn þegar kemur að prófum. Próftaka ætti þó ekki að þurfa að vera vandamál því að um land allt er boðið upp á aðstöðu til próftöku á vegum símenntunarmiðstöðva sem miðla háskólanámi og símenntun. Þessar stöðvar eru vel mannaðar og halda utan um próftöku 100 háskólanema á hverri önn. Vandinn liggur hins vegar í því að í sumum tilfellum er það fyrst og fremst undir kennara í viðkomandi kúrsi komið hvort nemandi sem býr fjarri háskóla fær heimild til að taka próf í heimabyggð sinni. Eins er það undir einstökum kennurum komið hvort fyrirlestrar eða glærur eru settar á námsvefi. Langflestir kennarar setja efni á netið og taka rökstuddum beiðnum um próftöku fjarri viðkomandi háskóla vel en þó eru allt of mörg dæmi þar sem nemendum er synjað um að taka próf í nálægð við sína heimabyggð.

Virðulegi forseti. Viljum við sem þjóð hafa þetta svona? Mér finnst þetta ófært. Það eru til samstarfsleiðir milli háskólanna og símenntunarmiðstöðvanna, góður aðgangur að tækni til að koma efni á netið en einstaklingar geta ákveðið að þær séu ekki nýttar öðrum til ómældra óþæginda.

Hæstv. forseti. (Forseti hringir.) Er eitthvert tæknivandamál hjá okkur?

(Forseti (EKG): Tíminn er bara búinn.)

Nei, það var aldrei nein klukka.

(Forseti (EKG): Hann er búinn í borði forseta.)

Já, en það þyrfti að benda á það.

(Forseti (EKG): Það er lakara að það sást ekki í ræðupúltinu en það hafði farið fram hjá forseta. En það sást glögglega á skjá forseta.)