143. löggjafarþing — 14. fundur,  1. nóv. 2013.

störf þingsins.

[10:54]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Afhending raforku hefur verið nokkuð til umræðu undanfarið en mjög skortir á að raforkuafhending í dreifðum byggðum sé sem skyldi. Einnig hafa verið kynntar hugmyndir um lagningu loftlínu yfir Sprengisand. Það hefur komið fram m.a. af hálfu Landsnets að lagning rafstrengja í jörð sé stórum dýrari en loftlínur.

Í gagnmerkri grein í nýlega útgefnu Bændablaði segir af reynslu Frakka af lagningu flutningslína í jörð. Þar kemur m.a. fram að kostnaður við lagningu jarðstrengja fyrir allt að 400 megavatta afl sé sambærilegur við kostnað af loftlínum. Þarna er sagt að Frakkar leggi þetta í fjalllendi sitt. Það hefur líka komið fram að endingartími jarðstrengja sé betri en loftlína.

Hér á landi háttar þannig til að ríkið leggur hærri innflutningsgjöld á jarðstrengi en loftlínur og það hlýtur að vera okkur nokkurt umhugsunarefni því að mér sýnist einboðið að við eigum að leggja meiri áherslu á að leggja jarðstrengi. Það gæti farið saman við lagningu hálendisvega, t.d. yfir Sprengisand. Þá mundum við losna við þá sjónmengun sem er af loftlínum. Mér sýnist því einboðið að við athugum það og finnst full ástæða til fyrir hv. atvinnuveganefnd að kalla aftur til fundar fulltrúa Landsnets og fara yfir þær upplýsingar sem hér hafa komið fram, því að ég held að okkur sé sæmra að reyna að draga úr sjónmengun af raforkulínum.