143. löggjafarþing — 14. fundur,  1. nóv. 2013.

störf þingsins.

[11:02]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar rétt að koma hingað upp og taka undir með hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur sem ræddi um starf Samhjálpar. Við fengum — að minnsta kosti þeir þingmenn sem eru nefndarmenn í fjárlaganefnd og varamenn þar — á dögunum bréf frá framkvæmdastjóra Samhjálpar þar sem hann lýsir stöðunni á þann veg að óvænt útgjöld hafi sett strik í reikninginn hjá þeim mjög svo þarfa félagsskap sem Samhjálp er — rekur hér að minnsta kosti þrjú meðferðarheimili og kaffistofu, meðal annars fyrir útigangsfólk og þá sem minna mega sín í samfélagi okkar.

Ég held að sú upphæð sem um ræðir sé innan við 10 milljónir en hún getur skipt sköpum. Þeir sem gjarnan leita á náðir Samhjálpar eru einstaklingar sem kannski eiga að baki fjöldann allan af meðferðum á Vogi og í öðrum meðferðarúrræðum. Þetta er oft síðasta haldreipi ákveðinna einstaklinga. Það skiptir mjög miklu að við séum reiðubúin að lesa okkur í gegnum þá stöðu sem upp getur komið hjá félögum eins og Samhjálp og reynum að styðja við það góða verk sem þar er verið að vinna. Ég held að óvænt uppákoma með nauðsynlegar umbætur vegna eldvarnaeftirlits á Hlaðgerðarkoti hafi kostað félagið um það bil 5 milljónir í viðbót og búið er að skera niður þá viðbótarfjármuni sem ákveðnir voru á síðasta ári til félagsins. Ég held að við verðum að hlusta á það ákall sem frá þessu ágæta félagi kemur.