143. löggjafarþing — 14. fundur,  1. nóv. 2013.

verslanaskrár, firmu og prókúruumboð, sameignarfélög og fyrirtækjaskrá.

132. mál
[11:15]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er hægt að hafa á því fullan skilning að í fjárlagafrumvarpinu sem lagt var fram núna í byrjun október sé ekki gert ráð fyrir kostnaðinum sem verður við það að gera þetta frumvarp að lögum, sem ég vona að hv. efnahags- og viðskiptanefnd muni tryggja að gerist nú fljótt og vel á næstu vikum. Ég skil þá yfirlýsingu ráðherrans sem svo í svari hans um að þetta verði tekið inn í fjárlagagerðina núna í haust að fyrirtækjaskránni verði tryggðar fjárveitingar við endanlega afgreiðslu frumvarpsins, bæði vegna þess einsskiptiskostnaðar sem kann að falla til á þessu og næsta ári og sömuleiðis vegna þess stöðugildis sem þar þarf ljóslega að bæta við samkvæmt því sem fram kemur í máli ráðherrans sjálfs.