143. löggjafarþing — 14. fundur,  1. nóv. 2013.

atvinnulýðræði.

121. mál
[12:35]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um skipan nefndar er geri tillögur um atvinnulýðræði. Í greinargerð með tillögunni kemur fram að tillögur sem lúta að auknu atvinnulýðræði launafólks innan fyrirtækja hafa verið lagðar fram með reglulegu millibili allt frá árinu 1965 en ekki fengið brautargengi nema að mjög takmörkuðu leyti. Allar hafa þessar tillögur verið vel rökstuddar hver með sínum hætti eftir því á hvað hefur verið lögð áhersla á hverjum tíma.

Megintilgangur tillagnanna hefur verið um efnahagslýðræði eða ákvarðanatökulýðræði. Þarna finnst mér vera mikill munur á hvor leiðin er valin. Hugmyndir um atvinnulýðræði byggt á efnahagslýðræði hafa lotið að því að vinnuframlag launamanns fái sambærilegan rétt og þeir sem ráða yfir fyrirtækinu og eiga fjármagnið og á þeim forsendum ættu launamenn rétt á arðgreiðslum eða yfirráð yfir fjármagni viðkomandi fyrirtækis.

Sú leið hefur verið gagnrýnd réttilega að því ég tel þar sem þar með væru launamenn orðnir verkfæri fjármagnsins og auð- og gróðahyggja sett í öndvegi sem mundi skyggja á aðra réttindabaráttu launafólks hverju sinni. Hin leiðin, ákvarðanatökulýðræði, nálgast málið út frá öðru sjónarhorni sem er að launamaðurinn með vinnu sinni sé metinn framar fjármagninu og hafi rétt til að koma að mótun fyrirtækisins og ákvarðanatöku og á það umhverfi sem stendur hverjum og einum næst hverju sinni á vinnustað. Þannig sé launamanni veitt aðild að ákvarðanatöku þess fyrirtækis sem hann vinnur hjá, þar sem stjórnendur hverju sinni sem ekki eru jafnframt eigendur ráða oftar en ekki meiru um stefnu fyrirtækisins en þeir sem eru meirihlutaeigendur eða eigendur hlutafjár í viðkomandi fyrirtæki. Það hvernig fyrirtækinu er stjórnað hverju sinni hefur mikið vægi.

Segja má að trúnaðarmannakerfið í íslenskum fyrirtækjum sem verkalýðshreyfingin kom á sé dæmi um vísi að atvinnulýðræði og hefur það fyrirkomulag virkað vel hér á landi. Frá þeim tímum sem krafan um atvinnulýðræði hljómaði sterkt í baráttu verkalýðshreyfingarinnar fyrir auknum áhrifum og völdum launafólks í landinu gagnvart atvinnulífinu og á þeirra nánasta umhverfi á vinnustað hafa orðið gífurlegar breytingar á vinnumarkaðnum í landinu.

Erfitt reynist í dag að greina hverjir raunverulegir eigendur fyrirtækja eru og alls kyns krosseignatengsl eru þvers og kruss á félög, eins og sjá mátti á grafíkmynd sem birt var í rannsóknarskýrslu Alþingis um bankahrunið og erfitt reyndist að lesa úr þeirri mynd af nokkru viti. Þar sem fyrirtækjaflóran er alltaf að verða flóknari og ógegnsærri um eignarhald tel ég rétt að nálgast málið frekar út frá rétti einstaklingsins til ákvarðanatöku á vinnustað sínum og í sínu nærsamfélagi í gegnum virkt atvinnulýðræði.

Eins og kemur fram í greinargerð með þingsályktunartillögunni hefur atvinnulýðræði skipað veglegan sess í mótun vinnumarkaðar í nágrannalöndum okkar og spurning hvað veldur því að það hafi ekki náð framgangi hér á landi og hvað veldur því að atvinnurekendur hafa verið mótfallnir auknum áhrifum starfsmanna innan fyrirtækja sinna.

Mér finnst mikilvægt að við það vinnumarkaðsumhverfi sem við búum við í dag sé látið reyna á hver hugur og viðhorf aðila vinnumarkaðarins sé gagnvart hugmyndum um atvinnulýðræði, hvað mælir með því og hvað gæti hugsanlega mælt gegn því í því þjóðfélagi sem telur sig vera með þeim fremstu í hópi lýðræðisríkja í heiminum.

Nú eru kjarasamningar fram undan, bæði hjá hinu opinbera og á almenna vinnumarkaðnum og nauðsynlegt að fá fram viðhorf aðila vinnumarkaðarins við hugmyndum sem þessum, að þróa atvinnulýðræði í nútímasamfélagi. Ég tel að þessi tillaga sé gott og þarft innlegg í aukna kröfu um lýðræðisumbætur í þjóðfélaginu sem á síðasta kjörtímabili endurspeglaðist í endurskoðun stjórnarskrár landsins í kjölfar þjóðfundar og kosningu stjórnlagaráðs. Enn fremur í aukinni kröfu landsmanna um að fram fari þjóðaratkvæðagreiðslur um stór mál er varða þjóðarhag landsmanna. Einnig er uppi sterk krafa fólks um rétt til ákvarðanatöku um mál í sínu nærsamfélagi hverju sinni með íbúalýðræði og kosningum um umdeild mál í sveitarfélögum á milli sveitarstjórnarkosninga.

Ég bind því vonir við að þingsályktunartillagan um að Alþingi kjósi nefnd sem geri tillögu um með hvaða hætti koma megi á atvinnulýðræði á vinnustöðum og enn fremur á meðal nemenda í skólum landsins hljóti góðan hljómgrunn hér á þinginu og fái brautargengi meðal þingmanna þvert á flokka.