143. löggjafarþing — 14. fundur,  1. nóv. 2013.

umfjöllun nefnd um þingmannamál.

[12:50]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. Helga Hjörvar um mikilvægi þess að þau þingmál sem þegar eru komin fram, sem flest hver held ég að tölu til séu mál einstakra þingmanna, bæði úr stjórn og stjórnarandstöðu, fái þá góðan tíma og að nefndirnar fái góðan tíma til að starfa að þeim vegna þess að ekki fer mikið fyrir stjórnarfrumvörpum þessa dagana.

Þetta var einnig rætt aðeins hér undir sama lið þingskapanna í gær og var forseti hvattur til að huga að því að gera breytingar á starfsáætlun þingsins, m.a. með það í huga að setja fljótlega inn aukanefndadaga til að nefndir geti þá lokið umfjöllun og meðhöndlun þeirra þingmála sem þangað eru þegar komin vegna þess að reynslan segir okkur að um leið og ríkisstjórnin fer að demba inn málum sem hún hefur boðað í þingmálaskrá verður öðru rutt til hliðar, bæði í þingsal og í nefndum. (Forseti hringir.) Þess vegna er mikilvægt að þau þingmál sem þegar eru komin þangað fái skjóta og góða afgreiðslu. Við hvetjum hæstv. forseta til að fjalla um málið og taka það upp á vettvangi forsætisnefndar.