143. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2013.

skýrsla Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga.

[15:06]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég hygg að það muni koma í ljós að það hafi verið hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem var fullfljótur á sér því að þó að gjöld og tekjur falli innan ársins á þann hátt sem lýst er þá breytir það ekki heildarmatinu fyrir árið sem eftir sem áður er eins og kynnt hefur verið þess eðlis að hallinn er margfaldur sá sem gert var ráð fyrir í fjárlögunum. Þó að þetta lendi á þennan hátt innan ársins er eftir sem áður gert ráð fyrir a.m.k. 30 milljarða kr. halla.

Þær tölur sem hv. þingmaður vísaði í, og sagði að ég og hæstv. fjármálaráðherra hefðum verið fljótir á okkur að kynna, voru bara tölur fjármálaráðuneytisins eins og þær lágu fyrir þegar ný ríkisstjórn tók við. Það má reyndar bæta því við að ef menn hefðu svo farið út í það að kynna næstu ár þar á eftir, allt kjörtímabilið, eins og síðasta ríkisstjórn hafði spáð fyrir um samhliða síðustu fjárlögum sínum, þá var staðan miklu, miklu verri vegna þess að ár frá ári, miðað við áform síðustu ríkisstjórnar, hefði hallinn aukist.

En hér erum við fyrst og fremst að ræða um halla ársins 2013. Hann verður, eins og meðal annars hefur komið fram á þeim fundi sem hv. þingmaður nefndi, margfalt meiri en gert var ráð fyrir í fjárlögum, illu heilli. Það er ekki vegna breytinga sem núverandi ríkisstjórn gerði. Það er einfaldlega vegna þess hvernig síðasta ríkisstjórn skildi við málið.

Núverandi ríkisstjórn hefur að vísu fallið frá áformum um hækkun skatts á ferðaþjónustuna, en það var til þess að auka tekjur ríkisins en ekki til að draga úr þeim vegna þess, eins og fyrrverandi fjármálaráðherra benti á, að óskynsamlegt var að fara í skattlagningu sem mundi fækka ferðamönnum, koma í veg fyrir að þeir kæmu yfir höfuð til landsins og gætu eytt peningum hér sem skila sér til ríkisins.