143. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2013.

viðræður við kröfuhafa og afnám gjaldeyrishafta.

[15:11]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil inna hæstv. forsætisráðherra eftir ummælum sem hann viðhafði í viðtali við Reuters-fréttaveituna í síðustu viku þar sem hann upplýsti okkur um að nokkur ár gætu liðið þangað til viðræðum við kröfuhafa föllnu bankanna lyki og hægt yrði að afnema gjaldeyrishöft. Hann bætti því við að það væri spurning hvenær kröfuhafar yrðu reiðubúnir að finna lausn en um leið og samningar næðust við þá ætti að vera hægt að aflétta gjaldeyrishöftum á tiltölulega skjótan hátt.

Fyrir einungis mánuði sagði hæstv. forsætisráðherra að viðræður við kröfuhafa væru ekki hafnar og það væri ekki ríkisstjórnarinnar að eiga í beinum viðræðum við kröfuhafa og Seðlabankinn ætti ekki heldur í viðræðum við kröfuhafa. Mér leikur því nokkur forvitni á að vita hvaðan hæstv. forsætisráðherra hefur upplýsingar sínar um að torvelt muni verða að aflétta höftum og það muni geta tekið nokkur ár. Auðvitað hljótum við þá líka að spyrja hvort þau loforð sem hæstv. forsætisráðherra hefur gefið skuldugum heimilum um úrlausn fljótt hangi á því að lausn finnist í þessum samskiptum við kröfuhafa. Ég vil líka spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann viti af þeim samtölum sem hæstv. fjármálaráðherra greinilega virðist eiga við kröfuhafa því að hann hefur sagt að kröfuhafar eigi að tala við Seðlabankann og hann hefur sagt að hægt sé að afnema gjaldeyrishöft á sex til níu mánuðum.

Ég tel mikilvægt að fá einhvern botn í þetta illskiljanlega mál. Hver er nákvæmlega að tala við kröfuhafa? Hvert er nákvæmlega mat ríkisstjórnar Íslands, hún hlýtur að hafa eitt og sama matið á því, á því hvenær von er á því að hægt sé að ná niðurstöðu í samningum við kröfuhafa?