143. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2013.

viðræður við kröfuhafa og afnám gjaldeyrishafta.

[15:17]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Ég skildi reyndar ekki alveg hvernig hv. þingmaður blandaði umræðu um leiðréttingu skulda inn í þetta, en hvað varðar afnám hafta er alveg ljóst að til þess að hægt sé að afnema höftin þurfa menn að vera búnir að sjá að það skapist þetta margumrædda svigrúm sem leyfi afnám hafta. Ef menn horfa hins vegar ekki fram á að það sé að skapast, ef ekkert verður af hugmyndum sem kröfuhafar hafa rætt — og þeir eru vissulega með sína fulltrúa hér á landi sem koma slíkum hugmyndum á framfæri — ef ekkert verður af lausn þar, geta menn auðvitað ekki gert ráð fyrir því að það fyrirkomulag sem var viðhaldið hér heilt kjörtímabil, sem var viðvarandi bráðabirgðafyrirkomulag, haldi áfram. Það að vera í slitameðferð er ekki eðlilegt rekstrarform fyrir fyrirtæki, ekki er hægt að gera ráð fyrir því að fyrirtæki séu í slitameðferð árum saman. Ef menn horfa ekki fram á það að hér skapist einhver lausn hljótum (Forseti hringir.) við að þurfa að laga aðstæður að því og nú er tekin til starfa þverpólitísk nefnd sem mun fylgjast með framgangi þeirra mála.