143. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2013.

áætlanir um fækkun sjúkrabifreiða.

[15:34]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að þrasa mikið um þessa seint fram komnu fyrirspurn frá nafna mínum, hv. þm. Kristjáni Möller. Ég skal bara kynna honum þau gögn sem til eru um þetta mál. Kröfulýsingin er alveg skýr um hvar skuli fækkað. Hún er ekki tekin af þeim sem hér stendur. Það er algjörlega óþarft að bera það upp á þá sem ekki eiga. Ég er búinn að lýsa því yfir að ég ætla að fara yfir þessi mál, áskil mér allan rétt til þess að breyta fyrri ákvörðun ráðuneytisins. Það liggur alveg skýrt fyrir í öllum pappírum þar hvar þetta á að koma niður.

Þegar hv. þingmaður nefnir hér að ekki liggi fyrir hvar þetta eigi að koma á Heilbrigðisstofnun Þingeyinga skal það bara upplýst hér að samkvæmt fyrri tillögu skal skorið niður á Raufarhöfn. Er einhver skynsemi í því? (KLM: Nei.) Ekki nokkur einasta, að mínu mati. Það þarf fyrst að fara 71 kílómetra frá Þórshöfn með sjúkrabíl til Raufarhafnar og svo 130 kílómetra til Húsavíkur. Er þetta til að mæta niðurskurði í heilbrigðisþjónustu á Íslandi? Er þetta til þess að greiða fyrir því að fólk á þessum stöðum hafi öryggistilfinningu? Nei, segi ég.

En ég bið hv. þingmann að kynna sér áður en hann rýkur upp í ræðustól á hvaða forsendum og af hverjum sú ákvörðun var tekin sem hann er að agnúast hér út í.