143. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2013.

ósk um fund í fjárlaganefnd.

[15:40]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég ætla að taka undir með hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur þar sem hún sendi fyrir hönd okkar þriggja, sjálfrar sín, mín og Brynhildar Pétursdóttur, beiðni um að fundur yrði haldinn. Hún var send í tölvupósti á fimmtudaginn og óskað eftir því að fundurinn yrði haldinn á föstudegi, í síðasta lagi á mánudegi.

Við því hefur ekki verið orðið og ég vek athygli hæstv. forseta á því að það er bókað í fundargerð fjárlaganefndar að þessu sé mótmælt. Við teljum að þetta sé brot á þingskapalögum og stemmir við það sem hér var lesið rétt áðan. Ég ætlast til þess að hæstv. forseti hlutist til um það að fundur verði haldinn á morgun með þeim aðilum sem hér um ræðir. Það eru mjög alvarlegar yfirlýsingar að ríkissjóður beri ekki neina ábyrgð á Íbúðalánasjóði, eins og haft var eftir hv. formanni fjárlaganefndar.