143. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2013.

framtíð rannsóknarsjóða og nýsköpunar.

[15:52]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er sérstök umræða um framtíð rannsóknarsjóða og nýsköpunar. Ég verð að segja að miðað við fjárlagafrumvarpið sýnist mér sem ný ríkisstjórn sé að boða það að fresta framtíðinni hvað varðar þessa málaflokka. Máli mínu til stuðnings er meðal annars hægt að benda á áminningarbréf frá vísindamönnum á síðustu dögum og grein sem háskólarektor, Kristín Ingólfsdóttir, skrifaði undir fyrirsögninni „Niðurskurður bitnar á verðmætasköpun vísinda“.

Það verður alltaf sami fyrirslátturinn þegar ný ríkisstjórn kemur fram, þá er annað tveggja sagt að það hafi verið áform fyrrverandi ríkisstjórnar, þess vegna hafi sú nýja ákveðið að taka það af, eða: Við gátum ekkert annað gert af því að ríkisstjórnin var búin að ákveða það. Ég held að menn verði að fara að venja sig á að taka ábyrgð á þeim ákvörðunum sem þeir hafa sjálfir tekið. Fjárlögin eru fyrsti og haldbærasti mælikvarðinn á það hver stefna núverandi ríkisstjórnar er og engin ástæða fyrir þessa ríkisstjórn, frekar en aðrar hæstv. ríkisstjórnir, að vitna endalaust í það hvað hefði annars orðið.

Það er fróðlegt að lesa það sem hæstv. ráðherra vitnaði í, áform um framtíðina í skýrslu Vísinda- og tækniráðs frá árinu 2012. Þar eru einmitt áform til framtíðar en þeim er hafnað á fjárlögum. Það er það sem er ámælisvert. Við getum sameinast um þau markmið sem þar koma fram þar sem verið er að ræða um að rannsóknir og þróun skipti gríðarlega miklu máli fyrir ný störf fyrir ungt fólk. Það eykur fjölbreytni í nýsköpun, það mun hafa áhrif á hagvöxt, það mun styrkja stöðu vísindafólks okkar á alþjóðlegum vettvangi og skapa okkur þar með tengsl og tækifæri inn í framtíðina. Það er sem sagt auður í menntun og framsókn varðandi fólk í þessum nýja þekkingariðnaði.

Það er mikilvægt að við (Forseti hringir.) gerum okkur grein fyrir því að framtíð Íslands byggist á mannauði og mikilvægi (Forseti hringir.) rannsókna. Ríkisstjórnin verður að fara að skilja það.