143. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2013.

framtíð rannsóknarsjóða og nýsköpunar.

[15:54]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegur forseti. Enn á ný stöndum við hér og ræðum niðurskurð í ríkisfjármálunum og enn á ný ræðum við það sem er eitt það mikilvægasta í samfélagi okkar; menntamál. Eins höfum við mikið verið að ræða heilbrigðismál. Það er náttúrlega þyngra en tárum taki að tala um þann gríðarlega niðurskurð sem farið verður í og í umræðum á þingi finnst mér alltaf áberandi, og það slær mig sem nýjan þingmann, þessi umkenningarleikur stjórnmálamanna; við getum ekki gert þetta af því að fyrri ríkisstjórn var búin að ákveða að gera þetta. En nú er þessi ríkisstjórn við völd og er ljóst að halli á ríkisrekstri er gríðarlega mikill. Það þarf að jafna hann til þess að hægt sé að fara að byggja upp. Þá er það spurningin um forgangsröðun. Það sem mér hefur fundist vanta á er að við þingmenn og hæstv. ríkisstjórn verjum hér velferðarmál, sérstaklega mennta- og heilbrigðismál.

Það hefur sýnt sig í löndum sem lent hafa í kreppu að með því að auka styrki til vísindastarfs og menntunar þá ná þjóðir sér fyrr upp úr kreppunni. Það er algjör forsenda fyrir lífi í landinu í raun og fyrir allri framþróun. Það segir sig sjálft. Ég hef áður vitnað í hæstv. menntamálaráðherra þar sem hann sagði við ættum að hætta að tala um hverju við eyðum í menntun heldur ættum við að tala um fjárfestingu okkar í menntun. Það finnst mér vera aðalmálið, að við erum að fjárfesta í framtíðinni og allar okkar auðlindir og verðmæti auðlinda skapast af þekkingu og vísindum, hvernig við getum aukið verðmæti okkar og byggt þannig upp.

Ég get nefnt sjávarklasann sem er með höfuðstöðvar í Grindavík og hér í Reykjavík þar sem unnið hefur verið ótrúlegt starf af vísindamönnum sem þróað hafa auðlindina til þess að auka virðisaukann. En eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra hefur verið skorið niður í þessum málum alveg endalaust ár eftir ár. Ég batt vonir við það eftir að hafa hlustað á það í kosningabaráttunni að nú yrði spyrnt við fótum og þessi þróun stöðvuð, enda stendur það í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Það stendur hvergi að að skera eigi niður.