143. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2013.

framtíð rannsóknarsjóða og nýsköpunar.

[16:06]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur lagði ríka áherslu á að verja samkeppnissjóðina og framlög til nýsköpunar eins og mögulegt var og setti aukin framlög til sjóðanna um leið og færi gafst, m.a. með hluta sérstaks veiðigjalds. Það var gert vegna þess að nýsköpun er mjög mikilvæg fyrir efnahagslífið. Hún getur ýtt verulega undir hagvöxt vegna þess að í henni felst framleiðsluaukning eða hagræðing sem leiðir af sér meiri framleiðni.

Ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar virðist vera á öðru máli og sker harkalega niður samkeppnissjóðina og aðrar stuðningsaðgerðir við nýsköpun og þróun. Í fjárlagafrumvarpinu er gerð tillaga um að skera Rannsóknasjóð niður um 170 millj. kr., Tækniþróunarsjóð um 283 millj. kr. og Markáætlun á sviði vísinda og tækni um 200 millj. kr. Samanlagt gerir þessi niðurskurður 653 millj. kr. sem er að minnsta kosti um 200 störf. Þetta mun augljóslega hafa veruleg áhrif á unga vísindamenn í landinu og atvinnuöryggi þeirra.

Ég átti þess kost að heimsækja Grindavík fyrir stuttu ásamt formanni Samfylkingarinnar. Við fórum þar í tvö fyrirtæki, Orf Líftækni og Bláa lónið. Bæði þessi fyrirtæki sögðu að þau væru ekki þar sem þau eru í dag ef þau hefðu ekki fengið framlög úr Tækniþróunarsjóði og þökkuðu því einnig að hafa fengið skattafslátt fyrir nýsköpunarfyrirtæki til nýsköpunar- og þróunarverkefna, en sá skattafsláttur er einnig tekinn af núverandi stjórnvöldum niður um fjórðung sem nemur þá 300 millj. kr. til viðbótar þegar til kemur — þrátt fyrir að fjárfesting í grunnrannsóknum sé forsenda hagvaxtar. Og menn eru (Forseti hringir.) sammála um það.