143. löggjafarþing — 15. fundur,  4. nóv. 2013.

efling skákiðkunar í skólum.

57. mál
[16:21]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir spurninguna og taka undir með hv. þingmanni um mikilvægi skáklistarinnar. Það er reyndar þannig, í það minnsta að mínu mati, með okkur Íslendinga að skákin er hluti af sjálfsímynd okkar sem þjóðar, ef hægt er að nota slíkt orðalag. Skák hefur verið og er vinsæl á Íslandi og nýverið eignuðumst við enn einn stórmeistarann, Hjörvar Stein Grétarsson, og rétt að fagna því og þeim merka áfanga.

Hvað varðar það sem um er að ræða sem er skákkennsla í grunnskólum er það rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að skýrslan Skák eflir skóla er afurð sem starfshópur á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytisins vann. Hún laut að því að kanna kosti skákkennslu í grunnskólum með því að skoða sérstaklega áhrif skákarinnar á námsárangur og félagsþroska.

Það eru færð fyrir því rök í skýrslunni að skynsamlegt kunni að vera að taka upp formlega skákkennslu í skólum á skólatíma. Síðan er tillaga um að ráðuneytið komi á þriggja ára tilraunaverkefni í völdum skólum og geri það strax haustið 2013 og að áherslan verði á skákkennslu strax í upphafi skólagöngu barna. Það var sett af stað verkefnastjórn núna í sumar og henni var falið að skoða þær tillögur sem komu fram í skýrslunni og hvernig hægt væri að hrinda þeim í framkvæmd. Það verður reyndar að segjast að verkefnið hefur tafist nokkuð en ég á von á því að fá niðurstöður frá starfsnefndinni, vonandi á næstunni, um framgang verkefnisins.

Þar komum við að sama þætti málsins sem snýr að fjármögnun, kostnaði. Það þarf auðvitað að vega það og meta miðað við annað. Ég hef áður sagt úr þessum ræðustól að við erum í þeirri stöðu að þurfa að verja grundvöll skólastarfsins. Ég tek sem dæmi framhaldsskólann þar sem við lögðum áherslu á í framlagningu þessa fjárlagafrumvarps að verja reksturinn en skera frekar niður önnur verkefni og hefja ekki ný — það gildir að nokkru hvað varðar þetta verkefni, sama regla á við. En það er rétt sem hv. þingmaður bendir á að það þarf ekki að vera um að ræða óyfirstíganlega kostnaðarliði. Þó er rétt að hafa í huga að við verðum einnig að horfa til þeirra þátta varðandi þetta verkefni.

Hitt er líka að það þarf náttúrlega að hafa um málið gott samráð við sveitarfélögin, því að það eru þau sem reka grunnskólann, hvað varðar aðkomu þeirra að verkefninu. En af því að hv. þm. Katrín Jakobsdóttir var svo vinsamleg að lýsa því yfir að þetta væri mál sem ég hefði áhuga á og hefði sinnt nokkuð er það svo að ég er mjög hlynntur verkefninu og ég hef áhuga á því og vil gjarnan að það nái fram að ganga. Það þarf þá, eins og ég segi, að finna fjármuni til þess og tækifæri til að það megi ganga fram.

Á sama tíma skiptir heilmiklu máli þegar kemur að skáklífinu í landinu að við reynum að styrkja eftir mætti skákmót, viðburði og aðra fræðslustarfsemi sem er mjög mikið um um þessar mundir. Það er mjög jákvætt og enn á ný vil ég fagna því að við Íslendingar eignuðumst nýjan stórmeistara. Það eru heilmikil tíðindi og ánægjuleg og ég tala nú ekki um þegar litið er til ungs aldurs þess sem hlaut þá merku tign fyrir nokkrum dögum.