143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir fyrirspurnina og að vekja máls á þessu stóra verkefni sem við höfum margoft rætt í þingsalnum, m.a. í tengslum við breytingar á gjaldþrotalöggjöfinni og fyrningartímanum á síðasta kjörtímabili.

Í þingsályktun núverandi ríkisstjórnar um aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna er aðgerðaáætlun til að taka á skuldavanda heimilanna lýst í tíu liðum. Einn af þeim liðum sem er verið að skoða er að kanna hvernig eignalausum einstaklingum verði gert kleift að greiða kostnað vegna gjaldþrotaskipta á búi sínu. Þetta er í lið 7 í þingsályktuninni sem var samþykkt í sumar. Ábyrgð á þessum hluta þingsályktunarinnar bera félagsmálaráðherra og innanríkisráðherra í sameiningu. Tekið er fram í greinargerðinni með ályktuninni að þetta gæti hugsanlega gerst með þeim hætti að ríkissjóður mundi ábyrgjast tryggingu og þar með greiðslu skiptakostnaðar í þeim tilfellum þegar fólk ræður ekki við að greiða skiptakostnaðinn sjálft.

Mér skilst að þetta mál sé í vinnslu í ráðuneytunum og innan skamms gætum við fengið að berja frumvarp um þessi efni augum. Hvers efnis það er get ég ekki upplýst á þessari stundu þannig að ég tel rétt að nefndin sjálf bíði með að flytja mál af þessu tagi þangað til við sjáum hver niðurstaðan verður af vinnu ráðherranna.

Það verður samt að líta til þess að þrátt fyrir að menn fari í gjaldþrot er ekki þar með sagt að þegar tveggja ára tímabilinu ljúki verði allt orðið eins og áður var vegna þess að ekki er sjálfgefið að viðkomandi geti auðveldlega nálgast lánafyrirgreiðslur þrátt fyrir að fyrningartíminn sé liðinn. Auðvitað hefur þetta áhrif á fjármálasögu viðkomandi. Þetta mál er að sjálfsögðu í skoðun og við fylgjumst vonandi með því í sameiningu, ég og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir.