143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Í síðustu viku vakti athygli mína grein í Morgunblaðinu um innflutning á hráu kjöti. Ég hef velt því fyrir mér hvaða verðmæti fylgja því að búa í landi þar sem búfénaður og annar kvikfénaður er án þeirra sjúkdóma sem herja á nágrannalönd okkar. Mér finnst að við þurfum að hugsa það alvarlega hvort við höfum hlaupið á okkur og ekki staðið í lappirnar þegar þessar reglur riðu yfir okkur eða hvort við höfum ekki verið klár í slaginn þegar við samþykktum þær, hvort slíkt hafi gerst.

Ég hef líka áhyggjur af því að á þessu ári hafa verið flutt inn u.þ.b. 1.400 tonn af alifuglakjöti, nautakjöti, svínakjöti og öðrum tegundum, mest af kjúklingum eða u.þ.b. 600 tonn. Mér er sagt að íslenskir innflytjendur á kjöti leiti eftir ódýrasta kjötinu, ekki því besta, og það sé síðan flutt inn. Kjötið er síðan unnið, jafnvel úrbeinað og þvegið upp úr íslensku vatni, pakkað í íslenskar umbúðir og selt á sama verði og kjúklingar sem eru ræktaðir á Íslandi. Á Íslandi er engin lyfjanotkun í kjúklingarækt; hún er algjörlega hrein, notast er við hreint vatn í hreinu umhverfi. Það sama á ekki við um innflutta kjúklinga.

Við þurfum að vara okkur og ég skora á okkur öll að standa vörð um hreinleika íslensks landbúnaðar.