143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Háskólinn á Hólum, Háskólinn á Bifröst og Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri eru mjög uggandi um sinn hag og fjárlagafrumvarpið gefur ekki til kynna að þeir geti verið bjartsýnir. Allir hafa þessir skólar, hver á sínu sviði, gegnt veigamiklu hlutverki á sínu svæði og nemendur komið þar að hvaðanæva af landinu og erlendis frá líka.

Háskólinn á Hólum hefur verið brautryðjandi í námi í ferðamálafræði, hestafræði og fiskeldi. Háskólinn á Bifröst er núna að vinna að tilraunaverkefni sem er liður í átaki í að hækka menntunarstig Norðvesturkjördæmi og vinnur þar með einstaklingum og fyrirtækjum í kjördæminu. Mikil ásókn hefur verið í nám við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og aldrei hafa fleiri sótt um skólavist þar en var nú í haust og þar er mesta ásóknin í búfræði og nám í búvísindum. Allir þessir háskólar hafa þurft að hagræða mikið undanfarin ár og skuldir frá því fyrir hrun hafa reynst þeim erfiðar. En það ríkir mikil óvissa hjá íbúum, nemendum og stjórnendum þessara skólastofnana um framtíðaráform stjórnvalda gagnvart þessum menntastofnunum og þeir hafa áhyggjur. Blásið hefur verið til íbúafundar í Borgarnesi af sveitarstjórn Borgarbyggðar næstkomandi fimmtudag til að ræða málefni háskólanna í Borgarbyggð.

Ég vil því kalla eftir svörum stjórnvalda gagnvart þessum háskólastofnunum. Eru sameiningar fram undan og hverjar þá? Ætla stjórnvöld að standa vörð um þá opinberu starfsemi sem þarna er og hefur svo sannarlega sannað sig og haft gífurlega mikla þýðingu fyrir þessar byggðir? Ég skora líka á stjórnarþingmenn í Norðvesturkjördæmi, sem eru ekki færri en sex, að sýna dugnað og kjark og standa með þessum öflugu menntastofnunum heima í héraði og sýna fram á að í verki sem orði virði þeir (Forseti hringir.) og vilji sjálfstæði skólanna og framgang í framtíðinni.