143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Hér kom ungur, nýr þingmaður, hv. þm. Vilhjálmur Árnason, og fór yfir kjarna máls, fór yfir það að við þurfum að ná endum saman í ríkisfjármálum, fór yfir það að til þess að svo megi verða þurfum við að forgangsraða, fór yfir það að ef menn koma hér sem fulltrúar einstakra stofnana og vilja fá aukið fjármagn til þeirra þarf að finna þá fjármuni annars staðar. (HHj: Veiðigjald.)

Virðulegi forseti. Gjaldþrota ofurskattstefna síðustu ríkisstjórnar er öllum ljós. Ef áætlanir síðustu ríkisstjórnar um að skattleggja meira og meira hefðu gengið eftir hefði hún ekki skilið eftir fjárlagahalla upp á 30 milljarða kr. (Gripið fram í: … rétt.) Þetta er kjarni máls.

Nú kemur Ríkisendurskoðun, virðulegi forseti, með ábendingar til hv. fjárlaganefndar og það eru ekki bara ábendingar til nefndarinnar, það eru ábendingar til okkar allra. 38% fjárlagaliða fóru fram úr áætlun. Það er agaleysi í ríkisfjármálum. Það hefur ekki verið tekið á þeim stofnunum og þeim fjárlagaliðum sem hafa stöðugt farið fram úr áætlun. Þetta er verkefnið, virðulegi forseti.

Ef menn koma hingað og tala á móti hagræðingaráformum, hvort sem það er sameining eða annað, hljóta þeir að koma með aðrar leiðir. Hér höfum við sameinað heilbrigðisstofnanir um langt árabil. Það er ekki eins og það hafi verið á litlum svæðum, t.d. á milli Akraness og Hólmavíkur. Menn fara ekki þar á milli á inniskónum. (Forseti hringir.) Enginn vill snúa til baka, virðulegi forseti, af ástæðu.

Ég hvet hv. þingmenn til að hlusta á unga þingmanninn, (Forseti hringir.) hv. þm. Vilhjálm Árnason.