143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil gera hér að umtalsefni sameiningu ríkisstofnana og áherslur hvað það viðfangsefni varðar. Í viðtali í Morgunblaðinu í gær við formann fjárlaganefndar, hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur, er til umræðu sameining ríkisstofnana og nauðsyn þess að gera þar enn betur en á síðasta kjörtímabili. Formaður fjárlaganefndar leggur þar einkum áherslu á að opinberum starfsmönnum þurfi að fækka umtalsvert og að það sé einmitt tilgangur sameiningar stofnana sem hún segir að allir séu sammála um.

Ég vil biðja hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur að útskýra betur hvað hún á við í þessu viðtali þegar hún talar um að mikilvægt sé að fækka opinberum starfsmönnum. Má ekki ná sparnaði með sameiningu stofnana nema með uppsögnum starfsmanna? Er staðreyndin ekki sú að þegar stofnanir eru sameinaðar fylgir oftast kostnaður til að byrja með en ávinningurinn er til lengri tíma? Hefur hv. þingmaður kynnt sér sameiningar frá síðasta kjörtímabili, t.d. sameiningu stofnana undir embætti ríkisskattstjóra?

Öllum ber saman um það sem til þekkja að þar hafi sameining tekist afar vel enda var áherslan lögð á samtal við starfsmenn og samráð um sameiningarferlið, hvernig best væri að ná hagræðingu og stuðla að bættri stjórnsýslu.

Svo virðist að við þessa velheppnuðu sameiningu hafi meginstefin verið umhyggja og virðing fyrir starfsmönnum. Hvað vill hv. þingmaður segja við þá ríkisstarfsmenn sem hafa miklar áhyggjur eftir orð hennar og óttast um starf sitt og stöðu?

Að lokum: Hvaða áhrif telur hv. þingmaður að umtalsverð fækkun opinberra starfsmanna hafi á uppbyggingu samfélags okkar? Hafa hún og hagræðingarhópurinn kynnt sér hlutfall opinberra starfa hér á landi miðað við annars staðar á Norðurlöndunum og fjárframlög landanna sem við höfum hingað til helst viljað bera okkur saman við til samneyslunnar?