143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[15:48]
Horfa

Páll Jóhann Pálsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir góðar umræður um þessa skýrslu og þá sérstaklega hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra fyrir að leggja hana fram og gefa þingi og þjóð góðan tíma til að kynna sér hana vel og skapa þar með vitræna umræðu um sæstreng hér í þinginu en ekki síður úti í þjóðfélaginu. Að tengjast Evrópu með rafstreng, sem yrði lengsti rafstrengur í heiminum, 1.200 km, er auðvitað svolítið íslenskt, okkur Íslendingum leiðist ekki að gera eitthvað á heimsmælikvarða og eigum auðvelt með að sannfæra hvert annað um að við séum mest og best í heiminum.

Bitur reynsla okkar hefur hins vegar kennt okkur að stíga varlega til jarðar þegar sérfræðingar koma með sín excel-skjöl og reyna að sannfæra okkur um auðfenginn gróða. Áætlaður stofnkostnaður upp á 300–500 milljarða og raforkusölu upp á 1.000 megavött hljómar ekki flókið reikningsdæmi og auðvelt að setja það upp í excel. Hættan er hins vegar sú að auðvelt er að setja þær tölur inn sem mönnum þóknast. Til að átta sig á umfanginu á 1.000 megavöttum má geta þess að uppsett afl Kárahnjúkavirkjunar er 690 megavött og samanlagt uppsett afl allra raforkuvera á Íslandi eru 2.700 megavött. Það er því augljóst mál að slík tenging við raforkumarkað Evrópu mun auka verulega þrýsting á fleiri virkjanir hér á landi. Því þurfum við að gera það upp við okkur hvort við ætlum að fara í stórfelldar virkjanir með tilheyrandi línulögnum um sveitir landsins til að byggja upp iðnað í Evrópu. Allt tal um sæstreng upp á 500 milljarða til þess að flytja út afgangsorku í kerfinu, sem er kannski 150–200 megavött, er því blekking ein.

Í skýrslunni segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Augljóst má telja að raforkuverð til heimila og smærri fyrirtækja muni hækka …“ — Þar af leiðandi „dragi úr afkomumöguleikum sprotafyrirtækja og annarra fyrirtækja, svo sem örfyrirtækja í smærri byggðum.“

Einnig segir í skýrslunni:

„Frá sjónarhóli græna hagkerfisins virðist einnig liggja beinna við að sú orka sem annars væri seld úr landi væri þess í stað nýtt til að gera Ísland óháðara innflutningi eldsneytis. […] Þar með væri hugmyndin komin í andstöðu við áherslur græns hagkerfis um uppbyggingu grænna starfa innan lands, auk þess sem nýting raforku til fjölþættrar framleiðslu innan lands hefur fljótt á litið burði til að skapa meiri virðisauka í þjóðarbúinu en útflutningur sömu raforku til nýtingar erlendis.“

Eftir lestur skýrslunnar tel ég nóg að sinni í skýrslugerð og legg til að fjármunum verði frekar varið í að klára að rafvæða Ísland. Ég á þá við að klára að leggja þriggja fasa rafmagn í dreifbýli og gefa bændum og smærri fyrirtækjum kost á því að tæknivæða atvinnurekstur sinn. Það mun auka nýtingu á öðrum auðlindum landsins.

Mikil vakning hefur orðið í fullvinnslu á sjávarafla og rafvæðingu í loðnubræðslum landsins sem eru að skipta úr olíu í rafmagn. Það skýtur því skökku við ef við ætlum að rjúka í að flytja út rafmagn í stað þess að nýta það til verðmætasköpunar hér heima. Sum sveitarfélög hafa sett það í auðlindastefnu sína að nýta skuli ákveðið hlutfall af nýtanlegri orku í viðkomandi sveitarfélögum til uppbyggingar í heimabyggð og gætum við á Alþingi tekið þau til fyrirmyndar.

Varðandi vindmyllur og vindorku, þá er þess getið í skýrslunni að við gætum nýtt vindorkuna upp í helminginn. Mér finnst það hljóma svolítið undarlega ef svona dýr sæstrengur er lagður hérna á milli landa til þess að flytja rafmagn sem framleitt er með vindi hér, sem væri hæglega hægt að gera hinum megin við hafið. Mér finnst það skjóta svolítið skökku við og trúi því tæplega að það geti verið mjög arðsamt.

Því vel ég leið þrjú hjá hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra þar sem hægt er á frekari könnun í þessum málum.