143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

raforkustrengur til Evrópu.

59. mál
[15:57]
Horfa

Jóhanna María Sigmundsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Margt athyglisvert hefur komið fram hér í dag. Talað er um þjóðhagslega hagkvæmni, því að eins og fram kemur í skýrslunni er hún ekki alveg fyrir hendi, og meðan svo er er sæstrengur í mjög fjarlægri framtíð.

Hæstv. ráðherra segir í formála skýrslunnar að á það hafi verið bent að ekki sé skynsamlegt að taka endanlega ákvörðun um slíkt verkefni nema víðtæk sátt ríki um það bæði innan Alþingis og í samfélaginu almennt. — Þeim tímapunkti er heldur ekki náð.

Einnig kemur fram í skýrslunni að veigamiklar breytur séu enn háðar umtalsverðri óvissu. Til að mynda kom fram í máli hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur að flutningur um sæstreng væri 110 megavöttum meiri en heildarframleiðsla Kárahnjúkavirkjunar og verður að líta til þess í þessu samhengi. Ætlum við Íslandi frekar að verða forðabúr Bretlands í orkumálum en að nýta innlenda raforku til atvinnusköpunar hérlendis?

Það bætast sífellt fleiri við á vinnumarkaði hérlendis. Innlend orka gefur okkur tækifæri til að byggja upp fleiri störf og þar með hagvöxt. Innlend verðmætasköpun er forsenda hagvaxtar og ef við ætlum ekki að horfa til þess munum við halda áfram fyrri skekkju og flytja út vinnuafl til annarra landa meðfram sæstreng.

Einnig kemur fram í skýrslunni að styrkja þarf flutningsnetið innan lands og fara í uppbyggingu þess til að anna auknu álagi. Ég er bæði glöð og hissa yfir þessum punkti. Ég er glöð yfir að loksins eigi að gera eitthvað í uppbyggingu dreifikerfis innan lands en ég er hissa á því að sæstreng þurfi til. Rafmagnsleysi í fleiri daga á ári í dreifðari byggðum er greinilega ekki hvatning til þess.

Hv. þm. Björt Ólafsdóttir talaði hér um stefnu Framsóknarflokksins. Við getum svo sannarlega fylgt stefnu okkar eftir þótt við tökum ekki upp öll verkefni og allar hugmyndir sem koma til umræðu, því að fyrir mörgum þeirra eru alls ekki nægileg rök. Við megum ekki gleyma því að Ísland er nú þegar að flytja út þvílíkt magn af raforku, hún fer bara út í mynd fullunninnar útflutningsvöru.

Sumir hafa talað hér í ræðustól um tekjur og fjármagn, en fram hefur komið að mikil óvissa sé um forsendur verðs fyrir útflutta orku og því er ekkert í hendi með rök um niðurgreiðslu á einu né neinu. Hv. þm. Róbert Marshall talaði um að það gæti ekki verið að hafsbotninum stafaði meiri hætta af lagningu sæstrengs en af botnveiðum. En í skýrslunni kemur fram að ekkert sé í hendi með endurheimtur á fyrra horfi eftir lagningu. Út frá máli hv. þingmanns má alveg tala um að það sem sæstreng stafar mikil hætta af, m.a. af náttúruhamförum og fiskveiðum og siglingum.

Ég kem ekki næstum því öllu sem ég vildi geta sagt að í þessari ræðu, en það hefur verið sagt, og ég endurtek það, að áhættan við lagningu sæstrengs til Bretlands er gríðarleg og í raun ómælanleg þar sem strengurinn yrði einn lengsti raforkustrengur í heimi. Því finnst mér að í þessu samhengi sé um að ræða mjög áhættusamt tilraunaverkefni og með umræddri skýrslu kemur aðeins betur í ljós að enn þá meiri vinnu þarf til áður en við getum tekið upplýsta ákvörðun.