143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

almannatryggingar, málefni aldraðra og félagsleg aðstoð.

144. mál
[16:34]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég kem aftur hingað upp til þess að ítreka spurningu mína til hæstv. ráðherra Eyglóar Harðardóttur um friðhelgi einkalífsins og Persónuvernd, sem er sú stofnun ríkisins sem á að tryggja að friðhelgi einkalífsins sé ekki brotin hér á landi. Er hún ekki sammála því að ekki eigi að afgreiða frumvarpið í þinginu fyrr en Persónuvernd hefur lagt blessun sína yfir það, hefur gefið umsögn þess efnis að frumvarpið, eins og það gengur til endanlegrar atkvæðagreiðslu, brjóti ekki eða ekki sé möguleiki á því að það brjóti friðhelgi einkalífsákvæðis stjórnarskrárinnar?

Ég mundi vilja biðja frú forseta — er ekki hægt að fá hæstv. ráðherra Eygló Harðardóttur í þingsal meðan umræðan á sér stað? Hún gekk héðan út rétt um það leyti sem ég hóf mál mitt. Er ekki hægt að fá hæstv. ráðherra í salinn til þess að taka þátt í umræðunni?

Ég endurtek orð mín ef hæstv. ráðherra Eygló Harðardóttir heyrði þau ekki. Er hæstv. ráðherra sammála því að ekki ætti að afgreiða frumvarpið í þinginu án þess að Persónuvernd, sú stofnun sem á að vernda friðhelgi einkalífsins, samþykki það, að frumvarpið sé ekki samþykkt á Alþingi fyrr en Persónuvernd hefur sagt að það brjóti ekki friðhelgi einkalífsákvæðis stjórnarskrárinnar?