143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

almannatryggingar, málefni aldraðra og félagsleg aðstoð.

144. mál
[16:39]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég trúi því og hef þá trú á hæstv. ráðherra að hún væri ekki að leggja fram frumvarp sem hún teldi brjóta gegn stjórnarskránni þannig að ég held að svarið liggi í sjálfu sér fyrir.

Þá vil ég spyrja hv. þingmann að því hvort hann telji að Persónuvernd eigi að hafa meira um það að segja hvernig löggjöf sé afgreidd frá þinginu en þeir sem eru til þess kjörnir af þjóðinni, þ.e. alþingismenn sjálfir.

Auðvitað er það þannig í okkar starfi að við þurfum að taka fullt af ákvörðunum, sumar auðveldar, sumar eru erfiðari. Það er okkar að meta hvernig löggjöf verði best úr garði gerð, með hvaða hætti við teljum rétt að líta til stjórnarskrárinnar og hvenær við teljum rétt að takmarka réttindi fólks, m.a. út frá hugmyndunum um persónuvernd. Hvar er línan? Það er okkar að meta það. Við getum að sjálfsögðu fengið umsagnir frá hinum og þessum aðilum, við gerum það alla daga í þinginu, en ákvörðunin er okkar. Við framseljum hana ekki til einhverrar stofnunar úti í bæ.