143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

bygging nýs Landspítala.

10. mál
[17:13]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þungamiðjan í þingsályktunartillögunni sem er hér til umræðu er að Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að ljúka eins fljótt og verða má undirbúningi byggingar nýs Landspítala. Það er kjarni máls. Síðan er spurningin: Hvernig, á hvaða forsendum?

Ég ætla að gera grein fyrir afstöðu þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Hún er frábrugðin þingsályktunartillögunni að því leyti að við leggjum áherslu á að um verði að ræða opinbera framkvæmd að öllu leyti í samræmi við það sem samþykkt var á Alþingi á sínum tíma í tíð fyrri ríkisstjórnar en ekki bjóða upp á þá valkosti sem hér er um rætt, að milligönguaðilinn verði opinbert hlutafélag. Þar er munurinn á afstöðu þeirra sem flytja þetta þingmál og okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði sem tókum þetta mál til sérstakrar umfjöllunar og samþykktum eftirfarandi á þingflokksfundi, með leyfi forseta:

„Í frumvarpi fjármálaráðherra til fjárlaga sem nú liggur fyrir Alþingi er boðað að ekki verði hafist handa við byggingu nýs Landspítala í opinberri framkvæmd í samræmi við lög nr. 53/2013. Áform um nýbyggingu fyrir spítalann eru því skyndilega í uppnámi þrátt fyrir brýna þörf, vandaðan og áralangan undirbúning og góða og breiða samstöðu sem ríkt hefur um þetta mikilvæga mál.

Það er eindregin afstaða þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að ekki verði unað við þá stöðu sem upp er komin.

Landspítalinn er bakhjarl allrar heilbrigðisþjónustu á Íslandi og nýtist landsmönnum öllum hvar sem þeir eru í sveit settir. Þingflokkurinn telur að ekki megi lengur dragast að hefja uppbyggingu nýs Landspítala fyrir sjúklinga og þjónustuna við þá og ekki síður fyrir allt það starfsfólk og nemendur sem starfa á spítalanum.

Ný bygging yfir kjarnastarfsemi Landspítalans er tímabær og hagkvæm. Rekstrarkostnaður spítalans er yfir 35 milljarðar króna á ári og talið er að með sameiningu spítalans á einn stað og með bættum tækjabúnaði og nútímalegri aðstöðu sé hægt að spara 2–3 milljarða króna á ári. Ef ekkert verður byggt þarf eigi að síður að setja ómældar fjárhæðir í endurnýjun á því gamla og óhentuga húsnæði sem nú er í notkun.

Ný bygging yfir Landspítalann er nauðsynleg fyrir heilbrigðisþjónustuna og þróun hennar jafnframt því sem nauðsynlegt er að Háskóli Íslands hafi boðlega aðstöðu til kennslu og þjálfunar. Á Landspítalann koma yfir 100 þúsund sjúklingar á ári, hvaðanæva af landinu, þar fara fram flóknustu aðgerðirnar, þar starfa 5–6 þús. manns og mörg hundruð nemar á öllum sviðum heilbrigðisvísinda á degi hverjum.

Afar brýnt er að skýr framtíðarsýn liggi fyrir þegar svo mikilvæg starfsemi er annars vegar. Sú stöðnun og afturför sem nú blasir við er með öllu ólíðandi. Óljós skilaboð og sú óvissa sem nú er uppi, veldur bæði sjúklingum og heilbrigðisstarfsmönnum áhyggjum og grefur undan trú á heilbrigðisþjónustunni í landinu.

Þingflokkurinn telur að Alþingi þurfi að tala skýrt í þessum efnum og standa með heilbrigðisþjónustunni og Landspítalanum og víkja ekki af þeirri leið sem Alþingi markaði í vor með afgerandi meiri hluta atkvæða.“

Hér hef ég lesið upp ályktun sem samþykkt var af þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um þetta málefni. Við erum á einu máli með flytjendum þingsályktunartillögunnar að mikilvægt sé að ljúka eins fljótt og verða má undirbúningi byggingar nýs Landspítala. Við greinum okkur frá að því leyti að við viljum að það verði í samræmi við fyrri samþykkt Alþingis um að framkvæmdin sé algerlega opinber en ekki í gegnum opinber hlutafélög, þar skilja leiðir. Við erum sammála um kjarna málsins að öðru leyti.