143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

bygging nýs Landspítala.

10. mál
[17:21]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst þetta orðin harla undarleg umræða. Ég kem hingað upp til að taka undir meginkjarnann í því þingmáli sem er verið að flytja og snýr að því að við reynum að hraða smíði nýs Landspítala og ég tók skýrt fram að það væri kjarni máls. Ég er ekki að efna til nokkurra útúrsnúninga eins og hv. þingmaður segir. Það eru engir útúrsnúningar þegar ég líki opinberri framkvæmd við það sem er að gerast í sambandi við Vaðlaheiðargöng þar sem hver einasta króna næstu árin kemur úr ríkissjóði. Það er bara staðreynd og eru engir útúrsnúningar af minni hálfu.

Hver einasta króna sem fer í smíði nýs Landspítala mun koma úr ríkissjóði. Ég hef margoft fært fyrir því rök í þessum sal að því færri milliliðir sem eru á þeirri leið, því betra, því ódýrara og því hagkvæmara fyrir íslenska skattgreiðendur.

Ég vil að við höldum okkur við þá niðurstöðu sem varð í þinginu þegar við góðu heilli snerum af þeirri leið sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn vildi jafnan sveigja okkur inn á, þ.e. með milliliðum og án þess að ríkið kæmi beint að málum. Ég vil halda okkur við þá niðurstöðu og ég er að leggja áherslu á það.

Ég vil jafnframt segja að lokum, og ítreka það sem ég tók fram í upphafi míns máls, að meginmálið er að við sameinumst um það að hraða smíði nýs Landspítala. Það er meginmálið og við eigum að horfa fram hjá því sem sundrar okkur í þessum leiðum þó að við gerum grein fyrir mismunandi afstöðu sem við kunnum að hafa og einblína á það sem sameinar okkur í þessum efnum.