143. löggjafarþing — 16. fundur,  5. nóv. 2013.

bygging nýs Landspítala.

10. mál
[17:50]
Horfa

Flm. (Kristján L. Möller) (Sf):

Hæstv. forseti. Fyrir það fyrsta vil ég þakka kærlega þeim þingmönnum sem tekið hafa til máls í þessari umræðu um þjóðarátak um byggingu nýs Landspítala, þingsályktunartillögu sem tíu þingmenn flytja hér á Alþingi. Mér finnst umræðan mjög jákvæð, það sem fram hefur komið, og það er einmitt það sem hún þarf að vera. Við þurfum að senda jákvæð skilaboð héðan frá Alþingi um að menn séu alls ekki hættir við þau miklu áform, nauðsynlegu áform, að byggja nýjan Landspítala; þjóðarátak, þjóðargjöf eða hvað sem við viljum kalla það. Senda þarf starfsfólki og landsmönnum öllum þau skilaboð og við þurfum að ræða lausnarmiðað hér á Alþingi hvernig við komumst í þá framkvæmd. Við þurfum, eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson talaði um, að bræða saman — hann notaði það orðalag — þær hugmyndir sem eru annars vegar hjá ríkisstjórnarflokkunum og stjórnarandstöðunni og hins vegar hjá Vinstri grænum sem hafa allt aðra nálgun. Auðvitað ber að virða þeirra nálgun og taka tillit til hennar en það skyldi þá ekki vera að það sé einmitt hægt að gera það sem hv. þingmaður var að tala um að fara þessa blönduðu leið.

Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra Bjarni Benediktsson sagði í svari sínu til mín að hægt væri að hugsa sér þá leið að taka peninga af sölu ríkiseigna til að leggja í byggingu spítalans. Í þingsályktunartillögunni er beinlínis talað um að ákvæði þurfi að vera í útboðsskilmálum vegna lántöku þess efnis að lántaka sé heimilt að greiða inn á lánið og lækka þar með höfuðstól og vexti. Einnig má hugsa sér að peningar komi beint af fjárlögum ef þeir verða til á næstu árum — þó litlir yrðu væri táknrænt að leggja það líka til. Þetta er hægt eins og hér hefur verið talað um. Við skulum leyfa okkur að tala um rúnnaða tölu, 40 milljarða, í þeim áformum sem talin eru upp í þingsályktunartillögunni, það eru þá 8 milljarðar á ári. Einnig má benda á það sem fram kom hjá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni að þetta gæti verið nauðsynlegur liður í hagvextinum sem þörf er fyrir. Það varðar þjóðarhag að skapa störf. Hvenær á ríkið enda að fara í framkvæmdir ef ekki á kreppu- og samdráttartímum? Ríkið á ekki að vera í framkvæmdum á þenslutíma heldur halda að sér höndum.

Virðulegi forseti. Aðstaðan á Landspítalanum er ekki nógu góð. Ég hef flutt tillögu um rannsóknir á svokölluðum myglusveppum en vert er að geta þess að í höfuðvígi heilbrigðisþjónustu á Íslandi hefur komið upp myglusveppur. Nokkrir af færustu sérfræðingum okkar hafa veikst vegna myglusvepps vegna þess að húsnæðið er komið til ára sinna. Það er engan veginn bjóðandi fyrir utan það að húsakynnin eru orðin allt of lítil, margir eru saman á stofu og ekki er hægt að bjóða upp á það. Ég var spurður að því, þegar ég lagðist inn á Landspítala í upphafi þessa árs, hvort ég hefði nokkurn tíma bókað mig inn á hótelherbergi með þeim ágæta manni sem lá við hlið mér á stofunni. Ég leyfði mér að efast um að það hefði ég nokkurn tíma gert. Þetta eru ný viðmið, þetta eru nýir tímar, sem við skulum hafa í huga. Við skulum líka hafa í huga, eins og hér hefur verið rætt um, að við þurfum að skapa góða starfsaðstöðu þannig að við höldum færustu læknunum okkar við bestu skilyrði sem til eru, þar með talið tæki, og fáum nýja lækna heim til landsins sem eru úti um allan heim að mennta sig. Þökk sé því fólki öllu fyrir að leggja þessa miklu menntun á sig. Gerum okkar til að gefa því kost á að koma heim og reka það öfluga heilbrigðiskerfi sem við viljum hafa hér á landi.

Virðulegi forseti. Okkur getur vissulega greint á um leiðir í þessu eins og fram kom hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni — ég brást kannski of harkalega við þeim sjónarmiðum sem hann setti fram. Ég tek því undir það að hluti af því að skapa þessa þjóðarsátt er að ná sátt innan þings, milli allra flokka, um að finna leið til að hefja byggingu. Það getur kannski kallað blönduð leið eins og ég gat um hér áðan. Margoft hafa metnaðarfull áform verið uppi og þar á meðal í fyrri ríkisstjórnartíð sjálfstæðis- og framsóknarmanna. Miklir peningar voru teknir frá eftir sölu Landsímans og það var samþykkt sem lög frá Alþingi að nota þá peninga í byggingu Landspítalans. Þau lög þurfti því miður að nema úr gildi eftir hrun og þar hurfu þeir peningar. Eins og hv. þm. Brynjar Níelsson og aðrir hafa talað um er erfitt að vera fátækur, það er erfitt að eiga ekki fyrir hlutunum og það er erfitt að þurfa að taka lán; það er engan veginn ásættanlegt að þurfa alltaf að taka lán, það er betra að eiga fyrir hlutunum. Þess vegna er hægt að fara þessa blönduðu leið.

Ég er ekki fjármálaverkfræðingur eða hagfræðingur en ég hef dundað mér við að búa til excel-skjöl. Miðað við höfuðstól upp á 40 milljarða kr. (43 plús eða mínus), ársávöxtun upp á 2,5%, sem ríkissjóður fær í HFF44 verðbréfaflokknum, sem er Íbúðalánasjóður, fer niður í 2,6% — ég er því miður allt of svartsýnn á verðbólgu og geri ráð fyrir 4,5% verðbólgu. Þetta reiknilíkan, þetta excel-skjal, mundi breytast mjög mikið ef við gætum til dæmis komist niður í verðbólgumarkmið Seðlabankans, 2,5%. En miðað við þær forsendur sem ég hef rakið þá borgum við á fyrstu 23 árunum — og ég tek það fram að útreikningar mínir eru ekki fullkomnir — 2 til 4 milljarða frá fyrsta ári til síðasta árs, í vexti og afborganir miðað við lán til 40 ára. Við getum leyft okkur að hafa lánið til 40 ára vegna þess að byggingin mun standa í langan tíma. Við getum líka haft þann möguleika inni í myndinni að ef ríkiseignir seljast, og hluti af þjóðarsátt okkar er að leggja það inn á höfuðstólinn, þá lækka þessar tölur. En fyrstu 20 til 25 árin erum við að borga innan við 4 milljarða í vexti og afborganir miðað við þessar forsendur — ég tek fram að ég er ekki hagfræðingur eða fjármálaverkfræðingur en ég held að þetta líkan mitt sé nokkuð áreiðanlegt. Það er einmitt talan sem hið norska fyrirtæki hefur nefnt sem sparnað þegar tekinn er inn í dæmið óhagkvæmur rekstur Landspítalans eins og hann er í dag — reksturinn er dreifður og fer fram á 17 stöðum víða um höfuðborgarsvæðið í um 100 húsum.

Hér er vissulega verið að ræða um háar tölur. Það er hárrétt, sem hæstv. heilbrigðisráðherra Kristján Þór Júlíusson segir, að um yrði að ræða stærsta framkvæmdaátak í sögu ríkissjóðs, vafalaust er það rétt. En ég vil í lokin minna á þá miklu fjármuni sem leggja þarf í spítalann á næstu árum ef við ætlum að standa sómasamlega að viðhaldi hans og skapa það öryggi sem þarf að vera á spítalanum, til þess til dæmis að læknar komist með sjúklinga sína milli hæða í lyftum en lyfturnar á spítalanum eru þannig að þær taka ekki nútímasjúkrarúm, ég tala ekki um ef einhver lækningatæki fylgja viðkomandi sjúklingi o.s.frv.

Ég gæti vissulega komið einu sinni enn hingað upp og rætt þessa þingsályktunartillögu en ætla að sleppa því. Ég ætla hins vegar að nota þessa síðustu mínútu til að þakka enn á ný þeim þingmönnum sem tekið hafa til máls og alveg sérstaklega þeim þingmönnum sem eru meðflutningsmenn á tillögunni. Margir þingmenn hafa tjáð mér að þeir hefðu verið tilbúnir til að setja nafn sitt á tillöguna ef þeir hefðu vitað af henni áður en hún var lögð fram. Það er svo sem ekkert keppikefli að vera með mikinn fjölda þingmanna á tillögum en æskilegt hefði verið að mynda um hana samstöðu milli allra flokka, að nöfn þingmanna úr öllum flokkum hefðu verið á tillögunni, en það tókst ekki. Ég ætla rétt að vona að velferðarnefnd, sem fær málið til úrvinnslu, sendi málið út til umsagnar og fái gesti á fund sinn til að ræða málin. Ég vona að velferðarnefnd, þar sem fulltrúar allra flokka sitja, takist með samræðum milli ríkisstjórnarflokka og stjórnarandstöðu að skapa þá þjóðarsátt sem ég tala um; sú sátt er meginmarkmið okkar í því að hefja byggingu nýs Landspítala. Við eigum nýjan spítala inni, hann á að vera okkar þjóðargjöf.