143. löggjafarþing — 17. fundur,  6. nóv. 2013.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. formönnum þingflokksformönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks vegna þeirra mála sem þær hafa vakið máls á hér, sérstaklega þar sem hv. þm. Sigrún Magnúsdóttir fjallaði um og minnti okkur á hvað það er mikilvægt að við séum myndarlegir þátttakendur í þróunaraðstoð. Þess vegna er það visst áhyggjuefni að það stefnir í að í fjárlögum ársins 2014 verði ekki fylgt eftir þeim áformum um aukningu á framlögum til þróunaraðstoðar sem samþykkt voru í þingsályktun hér í vor. Þetta er mjög brýnt viðfangsefni og ég þakka fyrir að vakið skuli máls á því hér.

Ég kvaddi mér aðallega hljóðs til að vekja athygli á því að hæstv. heilbrigðisráðherra hefur lagt fram svar við fyrirspurn frá mér um áætlaðar tekjur af legugjöldum á heilbrigðisstofnunum á árinu 2014. Þar kemur fram að gert sé ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs séu áætlaðar um 290 millj. kr. og er mest á Landspítalanum, um 200 millj. Það kemur einnig fram að miðað sé við að innheimt gjald af sjúkrahúsum verði 1.200 kr. fyrir hvern legudag og að um 27–30 þúsund manns verði gert að greiða þetta svokallaða hótelgjald til að standa undir hótelkostnaði sjúkrahússins. Hér er um að ræða 10–11 þús. kr. að jafnaði á hvern sjúkling. Ég hef áhyggjur af þeirri þróun vegna þess að hún leiðir til aukins ójafnaðar í samfélaginu. Það mun fyrst og fremst koma niður á þeim sem síst skyldi. Það er áhyggjuefni, ekki síst þegar við horfum t.d. á nýlega skýrslu þar sem fram kemur að Ísland stendur sig best í alþjóðlegum samanburði um jöfnuð en þessi þróun setur stöðu Íslands þar í uppnám. (Forseti hringir.) Ég vil hvetja hv. þingmenn, ekki síst vini mína í Framsóknarflokknum sem ég veit (Forseti hringir.) að hafa félagslegar taugar, til að huga sérstaklega að þessu máli við afgreiðslu (Forseti hringir.) fjárlaga fyrir árið 2014. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu.